top of page
Search

Jón Ásgeirsson hlýtur heiðurslaun

Allsherjarnefnd Alþingis ákvað á dögunum að Jón Ásgeirsson tónskáld og Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður hljóti heiðurslaun listamanna.


Jón stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, þar sem aðalkennarar hans voru Árni Kristjánsson, dr. Victor Urbancic og Jón Þórarinsson og hélt svo til framhaldsnám við Konunglega skoska tónlistarskólann í Glasgow og Guildhall tónlistarskólann í London. Auk tónsmíða starfaði Jón m.a. við kennslu, lengst af við Kennaraháskóla Íslands en hann var skipaður prófessor í tónlist árið 1996. Í fyrstu verkum sínum, Þjóðvísu, Lilju og Fornum dönsum sótti Jón efnivið til íslenskra þjóðlaga, en einnig liggja eftir hann ótal þjóðlagaútsetningar ýmist fyrir hljóðfærahópa eða kóra og hafa kórútsetningar hans öðlast sérstakan sess meðal íslenskra kórbókmennta. Meðal helstu verka Jóns eru óperurnar Þrymskviða og Galdra-Loftur, ballettinn Blindisleikur, Sjöstrengjaljóð fyrir strengjasveit, Konsert fyrir selló og horn. Flautukonsert Jóns var frumfluttur á Myrkum músíkdögum 2019.


Varla er til það mannsbarn á Íslandi sem ekki þekkir lögin Maístjörnuna og Vísur Vatnsenda-Rósu en hið fyrrnefnda samdi Jón við leikgerð á sögu Halldórs Laxness, Hús skáldsins ásamt fleiri lögum, m.a. Vorvísu, Hjá lygnri móðu og Nú snýr þú jörð sem má hlýða á hér fyrir neðan í flutningi Gunnlaugs Bjarnasonar og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Upptakan var gerð á tónleikum sem haldnir voru Jóni til heiðurs á Sönghátíð í Hafnarborg, sumarið 2020.


Jón hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur 1996, hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2019 og árið 2020 var hann gerður að heiðursfélaga í Tónskáldafélagi Íslands.


Verk Jóns í safni Tónverkamiðstöðvar eru aðgengileg í vefversluninni, shop.mic.is.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page