top of page
Search

Hafliði Hallgrímsson áttræður



Hafliði Hallgrímsson fæddist á Akureyri 18. september og verður því áttræður í dag, 18. september 2021. Hafliði er eitt af okkar mikilvirkustu tónskáldum og eru verk hans iðulega á efnisskrám bæði hljóðfærahópa og kóra. Hafliði hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín og tónsmíðar en verkasafn Hafliða spannar vítt svið og er stór hluti þess skráður hjá Tónverkamiðstöð. Ferill Hafliða er afar viðburðaríkur en hann hefur bæði starfað sem sellóleikari og tónskáld. Hann lauk burtfararprófi í sellóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1962 og fimm árum síðar lokaprófi frá í Royal Academy of Music í London. Frá útskrift lék hann með ýmsum kammerhópum og kammerhljómsveitum m.a. Haydn strengjatríóinu, English Chamber Orchestra, Menuhin Festival Orchestra og Monteverdi Orchestra og hélt einnig einleikstónleika, m.a. í Wigmore Hall árið 1971. Árið 1977 tók hann við stöðu fyrsta sellóleikara í Scottish Chamber Orchestra sem starfaði á þeim árum með miklum blóma og lék árlega á Edinborgarhátíðinni og var þrisvar sinnum staðarhljómsveit á tónlistarhátíðinni í Aix en Provance. Árið 1982 sagði Hafliði upp stöðu sinni til að helga sig svo til eingöngu tónsmíðum sem hann hafði stundað meðfram sellóleiknum allt frá unglingsárum. Hafliði stundaði nám í tónsmíðum hjá Elizabeth Luthyens, Dr. Alan Bush og Sir Peter Maxwell Davies. Tónsmíðar hans hafa verið leiknar víða um heim og eru þær nú ríflega hundrað talsins. Hafliði hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir tónverk sín, m.a. fyrstu verðlaun í alþjóðlegu Viotti-tónlistarkeppninni á Ítalíu og önnur verðlaun í Wieniawsky-keppninni í Póllandi. Þá hlaut hann Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir fiðlukonsertinn Poemi. Hafliði hefur í tvígang verið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann hlaut jafnframt tilnefningu til Íslensku tónlistarverðalaunanna 2019 fyrir óratoríuna Mysteríum, op. 53 sem var frumflutt við opnun Kirkjulistahátíðar, 1. júní 2019. (Stytt og endursagt af sinfonia.is). Verk Hafliða hjá Tónverkamiðstöð Heimasíða Hafliða Hallgrímssonar Viðtal við Hafliða í Morgunblaðinu í tilefni af sextugsafmæli hans

179 views

Recent Posts

See All
bottom of page