Tónlistarhátíðin ErkiTíð 2022 verður haldin dagana 25.-27. nóvember í Reykjavík. Á hátíðinni verða flutt og frumflutt á þriðja tug tónverka frá ýmsum tímabilum íslenskrar raftónlistarsögu.
Verk Þorkels Sigurbjörnssonar og ævistarf hans verða í forgrunni á ErkiTíð 2022 en hann er einn af frumkvöðlum raftónlistar á Íslandi. Af því tilefni var efnt til samkeppni fyrir ung tónskáld í samvinnu við Tónskáldasjóð RÚV og STEFs.
Dagskrá ErkiTíðar 2022 er nú aðgengileg á heimasíðu hátíðarinnar og kennir þar ýmissa grasa. Meðal fjölda annarra verka verður endurflutningur á Rabba rafmagnsheila, óperu fyrir börn sem flutt verður af Skólakór Kársness og CAPUT. Þórður Magnússon tölvusetti verkið sérstaklega af þessu tilefni fyrir Tónverkamiðstöð með stuðningi frá Nótnasjóði STEFs.
ErkiTíð hefur frá upphafi lagt áherslu á íslenska raftónlist og nýsköpun á því sviði. Hátíðin var fyrst haldin árið 1994 af tilefni lýðveldisafmælis Íslands og síðan þá hafa svo verið samin og frumflutt tugir nýrra íslenskra tónverka að tilhlutan ErkiTíðar. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Kjartan Ólafsson tónskáld.
Comments