top of page
Search

Hljóðverk 21/22 í Salnum

Salurinn hefur síðastliðin tvö ár, haft frumkvæði að pöntun tónverka frá íslenskum tónskáldum í tónsmíðaverkefnunum Tónverk 20/21 og Hljóðverk 21/22 en verkefnin eru stofnuð í þeim tilgangi að stuðla að frumsköpun í tónverkagerð og að kynna íslensk tónskáld. Í fyrra voru frumfluttir fjórir strengjakvartettar en í ár verða fimm hljóðverk frumflutt. Auglýst var eftir umsóknum frá tónskáldum haustið 2020 og voru umsóknir fimmmenninganna valdar úr stórum hópi tónskálda. Verkefnið er styrkt af lista- og menningarráði Kópavogs og unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Kópavogs og Tónverkamiðstöð.


Tónskáldin Gunnar Gunnsteinsson, Ingibjörg Friðriksdóttir (Inki), Ríkharður H. Friðriksson, Úlfur Eldjárn og Þóranna Björnsdóttir voru valin til að semja hljóðverkin sem eru innblásin af hljóðheimi Kópavogs. Hávær lofgjörð til Kópavogspönksins, hiphop-skotin minningabrot úr kvennafangelsi, ómþýðar pípulagnir í Kópavogi, taktfastar raddir bæjarbúa og altarishljóð fyrir Kópavogskirkju fléttast inn í hljóðverkin sem pöntuð voru af Salnum í Kópavogi. Verkin hljóma í ólíkum rýmum Salarins og í Kópavogskirkju þar sem lokaverk tónleikanna mun hljóma.


Verkin verða frumflutt fimmtudaginn 19. maí og hefjast tónleikarnir í Salnum kl. 19.30.


Tónskáld – Hljóðverk 21/22
Tónskáld Hljóðverka 21/22, f.v.: Gunnar, Ingibjörg, Ríkharður, Úlfur og Þóranna

UM VERKIN Brotabrot - Minningar úr Kvennafangelsinu eftir Ingibjörgu Friðriksdóttur (Inki) Sögur af fangavist, afbrotum og brotamönnum eru viðamikill hluti af afþreyingarsamfélagi samtímans þar sem skuggahliðar mannlífsins verða að glansandi markaðsvöru. Þær vekja eftir allt saman eðlilega forvitni. Úr hæfilegri fjarlægð eru þær áhugaverðar og spennandi en eftir því sem þær standa okkur nær dregur úr skemmtanagildinu.

Þannig var Kvennafangelsið. Víggirt hús inni í miðri borg, svo nærri og svo óþægilegt að það varð ósýnilegt – hluti af malbikinu. Vistmenn þess heyrðu hins vegar í lífinu sem leið hjá: umferðarniðinn á Kópavogsbraut, fólki á leið í sundlaugina, börnum á leikskólanum í næsta húsi. Upplifunin var brotakennd – stundum var umheimurinn til og stundum var hann þögull.

Hún glansaði ekki. Má ljá henni gljáa?

Í Brotabrot steypir Inki frumsamdri tónlist, umhverfishljóðum fangelsisins og viðtölum við fyrrum fanga í dansvænt, hiphop-skotið tónverk sem spyr ágengra spurninga um tengsl fangavistar og afþreyingar. Niðurstaðan verður kunnugleg en jafnframt framandi, blákaldur veruleiki og skýjuð minning – svona eins og lítið hvítt hús í hjarta Kópavogs, umkringt gaddavírsgirðingu. Pípuorgelkonsert eftir Gunnar Gunnsteinsson Skólp og vatnsveita Kópavogsbæjar fá í verkinu Pípuorgelkonsert tækifæri til þess að syngja sig inn í hug okkar og hjörtu. Konsertinn er í þremur köflum: Presto (kynding), Lento (skólp) og Allegro (neysluvatn).

Annars vegar er unnið með vettvangsupptökur af fráveitukerfi Kópavogs og hins vegar er notuð elektróník til þess að beina sviðsljósinu að lögnunum í húsnæði Salarins. Gott - fyrir hátalarahvelfingu eftir Ríkharð H. Friðriksson „Kópavogur er staðurinn þar sem ég bjó mestöll mín uppvaxtarár og hefur mótað mig meira en flestir aðrir staðir. Fyrir bragðið á hann slíkt pláss í hjarta mínu að ég sný þangað aftur og aftur, bæði til vinnu og til ánægju“ segir Ríkharður.


Þessi langvinna ánægjulega reynsla varð innblástur til að leggja út af fleygum orðum fyrrverandi bæjarstjóra um lífsgæði í Kópavogi. Upptaka af þessari einu setningu er eina efnið sem er notað í allt verkið. Síðan er hljóðið leitt út í hátalarahvelfingu sem býr til þrívítt rými sem umkringir áheyrandann og fellir hann algerlega inn í alltumlykjandi hljóðmyndina. Hamraborgin – óður til hávaða eftir Úlf Eldjárn Því hefur oft verið kastað fram að úr Kópavoginum komi óvenjumargir magnaðir trommuleikarar. Það er kannski ekki furða því Kópavogur er jú vagga pönksins á Íslandi og þar voru um skeið flestar dauðarokkshljómsveitir í heiminum, ef miðað er við höfðatölu.

Hamraborgin er nefnt eftir hinni goðsagnakenndu skiptistöð og er ætlað að vera einskonar minnisvarði um trommuarfleifð Kópavogsins en um leið er þetta óður til allra trommuleikara og listarinnar að búa til tónlist úr hávaða. Verkið verður flutt af 7 trommuleikurum úr ólíkum áttum. Altarishljóð – fyrir Kópavogskirkju eftir Þórönnu Björnsdóttur Altarishljóð eru hversdagsleg hljóð sem Þóranna fann í umhverfi Kópavogs. Innblásin af ýmsu úr sögu bæjarins og menningu mótaði hún úr hljóðupptökum hljóð - og tónvefnað og aðlagaði að hljómburði Kópavogskirkju. Með verkinu vill Þóranna tengjast kyrrð hússins og vera í samspili við hljóðlát skilaboð þeirra töfrandi listaverka sem í kirkjunni eru er túlka kristna trúarheimspeki og lyfta huganum til andlegra hugleiðinga.


TÓNSKÁLDIN


Gunnar Gunnsteinsson er tónskáld og tónlistarmaður með BA próf í tónsmíðum frá Amsterdam. Hann hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir, sviðsverk, innsetninga og gjörninga og komið víða fram sem tónlistarmaður með ótal hljómsveitum.


Inki (Ingibjörg Friðriksdóttir) lauk meistaragráðu í tónsmíðum og upptökutækni frá Mills College í Kaliforníu og hefur gert hljóðverk og innsetningar af ýmsu tagi þar sem unnið er með brotakenndar upplifanir, minningar og tjáningu. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, og þau hljómað víða í Evrópu og vestan hafs. Verkin liggja á óljósum landamærum tón- og sjónlistar, leikið er með ólíka miðla til að mynda upplifun þvert á skynfæri sem er allt í senn heildstæð og brotakennd, húmorísk og þankavekjandi.


Ríkharður H. Friðriksson hóf ferilinn í rokktónlist en stundaði síðar nám í tónsmíðum í Reykjavík, New York, Sienna og Haag. Hann er einn af frumkvöðlum á sviði raftónlistar á Íslandi og hefur samið sæg tónverka fyrir ólík tilefni. Ríkharður kennir tónsmíðar við Tónlistarskólann í Kópavogi og Listaháskóla Íslands auk þess að vera liðsmaður Iceland Sound Company og Fræbblanna.


Úlfur Eldjárn lauk BA námi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað sem tónlistarmaður, tónskáld, upptökustjóri og hljóðfæraleikari frá unga aldri. Hann hefur fengist við flestar tegundir tónlistar, popp, raftónlist, djass, klassík og tilraunakennda nútímatónlist.


Þóranna Dögg Björnsdóttir lauk BA gráðu í hljóð- og myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag árið 2006. Viðfangsefni hennar eru mörg og fjölbreytt en snúast gjarnan um heimssýn einstaklingsins, hvernig hún mótast og þróast. Verk hennar eru iðulega sambland af mynd og hljóði; taka form í gegnum lifandi gjörninga, innsetningar og hljóðverk.



Recent Posts

See All
bottom of page