Kynningarviðburðurinn PODIUM fer í fyrsta sinn fram á Myrkum músíkdögum 2021, í Norræna húsinu þriðjudaginn 20. apríl næstkomandi. Óskað er eftir umsóknum frá íslenskum tónskáldum og tónskáldum búsettum á Íslandi.
PODIUM er kynningarviðburður fyrir íslensk tónskáld þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sig og verk sín. Myrkir músíkdagar munu bjóða á viðburðinn innlendum og erlendum aðilum sem hafa m.a. áhrif á verkefnaval hljómsveita, hátíða, tónlistarhópa og tónlistarhúsa.
Hvert tónskáld fær 10 mínútur til að kynna verk sín og hefur nokkuð frjálsar hendur hvað kynningu varðar. Kynningin getur verið heildstæð kynning á tónskáldinu sjálfu, kynning á úrvali verka eða kynning á tilteknu verki. Bæði er hægt að flytja hljóðupptökur og myndbandsupptökur í gegnum streymið. Einnig er hægt að flytja smærri verk á staðnum. Flygill, míkrófónar og hljóðkerfi verða til staðar til að nota í kynningunum ef óskað er.
Viðburðinum verður streymt en gert er ráð fyrir því að kynningar tónskálda fari fram á staðnum.
Allar fyrirspurnir og nánari tæknispurningar er best að senda með tölvupósti á Myrkra músíkdaga: myrkirmusikdagar@gmail.com.
Umsóknarform og nánari upplýsingar má finna hér: https://forms.gle/j8aBQJ7TR1LsMPVK7
Umsóknarfrestur er til 14. mars 20201. Umsóknum verður svarað í seinni hluta mars.
PODIUM er samstarfsverkefni Myrkra músíkdaga, Tónverkamiðstöðvar og ÚTÓN
Comentários