Myrkir músíkdagar fara fram dagana 23. til 29. janúar næstkomandi. Hátíðin var síðast haldin árið 2020 en var að mestu felld niður á síðasta ári vegna heimsfaraldursins.
Dagskráin er mjög fjölbreytt og endurspeglar þann kraft og nýsköpun, sem einkennir íslenska samtímatónlist á líðandi stundu. Viðburðir hátíðarinnar fara flestir fram í Hörpu en einnig í Norræna húsinu, Hallgrímskirkju og Ásmundarsal.
Í fyrirrúmi þetta árið verða verk sem blanda saman mismunandi tækni og könnuð mörk þess mögulega í flutningi á samtímatónlist. Víddir eru opnunartónleikar Myrkra músíkdaga í ár og fara fram í Hallgrímskirkju 23. janúar. Bára Gísladóttir samdi samnefnt verk sérstaklega fyrir Grundtvigs Kirke í Kaupmannahöfn, sem svipar mjög til Hallgrímskirkju bæði hvað varðar arkitektúr og einstakan hljómburð. Samdægurs opnar Sóley Stefánsdóttir innsetningu sína í Ásmundarsal, en Sóley mun jafnframt koma fram á tónleikum í Hörpu á lokadegi hátíðarinnar. Sellóleikarinn Sigurgeir Agnarsson flytur verk eftir frændurna Hafliða Hallgrímsson og Huga Guðmundsson. Á tónleikunum verður m.a. frumflutt nýtt verk eftir Hafliða, Solitaire II. DAGSKRÁ MYRKRA MÚSÍKDAGA
PODIUM – nýjung á dagskrá hátíðarinnar
PODIUM er nýr dagskrárliður á Myrkum músíkdögum. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Tónverkamiðstöð í þeim tilgangi að koma íslenskum samtímatónlistarverkefnum á framfæri við listræna stjórnendur, hátíðir, hljómsveitarstjóra, tónleikhús innan lands sem utan. PODIUM fer fram í Norræna húsinu dagana 24. og 25. janúar og verður svokallaður „hybrid“-viðburður. Gestum er velkomið að mæta í sal Norræna hússins milli kl. 13 og 15 en viðburðurinn verður jafnframt í beinu streymi á netinu. Á PODIUM verða kynnt ellefu fjölbreytt tónlistarverkefni. Viðburðurinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.
Skráning og dagskrá er á heimasíðu Myrkra músíkdaga.
Myrkir músíkdagar er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands sem vettvangur fyrir íslensk tónskáld til að fá verk sín flutt. Hátíðin á því 42 ára afmæli í ár. Tónlistarhátíðin fer fram á myrkasta tíma ársins en leiðarljós hátíðarinnar er að flytja og kynna samtímatónlist með áherslu á nýja, íslenska tónlist og flytjendur í bland við erlend verk og erlenda flytjendur.
Dagskrá og nánari upplýsingar um hátíðina má finna á www.darkmusicdays.is.
Miðasala fer fram á tix.is.
Comments