top of page
Search

Jórunn Viðar (1918-2017)

Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari, lést 27. febrúar síðastliðinn, 98 ára að aldri.

Jórunn fæddist í Reykjavík 7. desember 1918, dóttir hjónanna Katrínar Jónsdóttur Viðar og Einars Indriðasonar Viðar. Hún lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1936, eftir að hafa stundað píanónám hjá móður sinni, Páli Ísólfssyni og Árna Kristjánssyni. Jórunn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík ári síðar og hélt síðan til Berlínar þar sem hún stundaði framhaldsnám við Hochschule für Musik. Hún dvaldi í Berlín til ársins 1939 en kom þá heim þegar syrta tók í álinn í Evrópu.

jorunn-vidar

Jórunn Viðar (1918–2017)

Á árunum 1943 til 1945 nam Jórunn tónfræði og tónsmíðar við Juilliard tónlistarskólann í New York undir leiðsögn Vittorios Gianninis. Eftir að hún sneri aftur til Íslands lét hún fljótlega að sér kveða, bæði sem tónskáld og píanóleikari og hefur æ síðan verið áberandi í íslensku tónlistarlífi.

Jórunn var frumkvöðull í smíðum ballett- og kvikmyndatónlistar hér á landi. Hún samdi tónlistina við mynd Óskars Gíslasonar, Síðasti bærinn í dalnum og var fyrst íslenskra tónskálda til að semja balletttónlist, Eld. Af öðrum þekktum verkum Jórunnar má nefna ballettinn Ólaf Liljurós, píanókonsertinn Sláttu og fjölmörg sönglög og kórverk til dæmis Júnímorgun, Únglinginn í skóginum, Vort líf, Þjóðvísu, Kall sat undir kletti, Jól og Það á að gefa börnum brauð.

Árið 1950 gerðist Jórunn félagi í Tónskáldafélagi Íslands, fyrst kvenna og var lengi vel eina konan á þeim vettvangi eða þar til Karólína Eiríksdóttir fékk inngöngu árið 1981.

Jórunn hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín sem tónlistamaður, var m.a. valin borgarlistamaður Reykjavíkur árið 1999 og hlaut bæði heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna (2004) og Menningarverðlaun DV (2009). Jórunn hlaut heiðurslaun listamanna frá Alþingi og árið 1989 var hún sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku fálkaorðu.

Eiginmaður Jórunnar var Lárus Fjeldsted forstjóri og eignuðust þau þrjú börn, Lárus, Katrínu og Lovísu.

Tónverkamiðstöð hefur um árabil veitt verkum Jórunnar móttöku og útbúið nótur til flutnings. Verk Jórunnar eru aðgengileg á þessari síðu í vefverslun miðstöðvarinnar. Um leið og starfsfólk og stjórn Tónverkamiðstöðvar sendir aðstandendum Jórunnar innilegar samúðarkveðjur þökkum við gefandi og farsælt samstarf.

. . . . . .

Árið 1989 birtist sex síðna viðtal við Jórunni í tímaritinu Þjóðlífi, þar sem hún ræðir við Pétur Má Ólafsson. Viðtalið er tekið stuttu eftir sjötugsafmæli Jórunnar og greinir hún þar frá lífshlaupi sínu, áhrifavöldum og tónsmíðum. Viðtalið er birt hér (smellið og skjalið opnast í nýjum glugga) en er einnig aðgengilegt á timarit.is.

197 views

Comments


bottom of page