top of page
Search

Forseti Íslands settur í embætti – tónlistin við athöfnina

GuðniogEliza

Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands í gær, 1. ágúst. Eins og hefð gerir ráð fyrir var athöfnin tvískipt, annars vegar messa í Dómkirkjunni og hins vegar formleg innsetningarathöfn í Alþingishúsinu. Tónlistin lék stórt hlutverk og fer hér á eftir yfirlit yfir þau íslensku tónverk sem leikin voru við athöfnina, ásamt tenglum á viðkomandi verk í vefverslun Tónverkamiðstöðvar.

Messan í Dómkirkjunni hófst á að Kári Þormar lék orgelverkið Englar á sveimi eftir Báru Grímsdóttur. Því næst flutti Dómkórinn sálm Hallgríms Péturssonar Víst ertu Jesú kóngur klár, íslenskt þjóðlag í útsetningu Páls Ísólfssonar. Að guðspjalli loknu flutti kórinn sálm Kolbeins Tumasonar, Heyr himna smiður, við lag Þorkels Sigurbjörnssonar. Eftir prédikun Agnesar M. Sigurðardóttur biskups flutti Bergþór Pálsson lag Sigvalda Kaldalóns, Þó þú langförull legðir (úr Íslendinga dags ræðu), við undirleik Kára Þormars organista. Ljóðið er eftir Stephan G. Stephansson.  Að blessun lokinni flutti kórinn svo Yfir voru ættarlandi, lag Sigfúsar Einarsson við ljóð Steingríms Thorsteinssonar.

Við athöfnina í Alþingishúsinu flutti Jóhanna Vigdís Arnardóttir lag Bergþóru Árnadóttur við ljóð Laufeyjar Jakobsdóttur, Lífsbókina.

Útsending RÚV frá athöfninni er aðgengileg til hlustunar á vef RÚV.

9 views

Comments


bottom of page