top of page
UPPHAFIÐ

Íslensk tónverkamiðstöð var stofnuð 21. febrúar árið 1968 og hefur starfað síðan þá sem miðstöð íslenskrar samtímatónlistar. Lengi vel var Tónverkamiðstöð eina kynningarmiðstöð íslenskrar tónlistar.
Fyrir utan nótnaumsýslu hefur stór hluti starfseminnar snúist um kynningar erlendis og innanlands á íslenskum tónverkum, í þeim tilgangi að fá verkin flutt og auka þannig hróður íslenskra tónskálda. Það er forvitnilegt að grípa niður í heimildir um stofnun Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og við birtum hér stytta útgáfu af grein Bjarka Sveinbjörnssonar um stofnun miðstöðvarinnar. 

​

>>>

Eitt af baráttumálum íslenskra tónskálda um miðja 20. öldina var stofnun svokallaðrar MIC-stöðvar (Music Information Center) – Tónverkamiðstöðvar. Umræðan um stofnun hennar fór fyrir alvöru af stað upp úr 1960 og leiddi að lokum til stofnunar Íslenskrar tónverkamiðstöðvar árið 1968. Upp komu hugmyndir hjá Tónskáldafélagi Íslands um að ráða erlendan nótnaskrifara á vegum Menningarsjóðs til að gera góðar raddskrár af íslenskri tónlist og í framhaldi af því sjái um útgáfu „fullkominnar verkaskrár og upplýsingarits um íslenska tónlist“.[1] Á aðalfundi Tónskáldafélagsins árið 1963 bar formaður félagsins, Jón Leifs, fram eftirfarandi tillögu:

​

Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1963 fer þess á leit við menntamálaráðherra og Menntamálaráð Íslands að Tónskáldafélaginu verði veittur fjárstyrkur til að starfrækja upplýsingaskrifstofu um íslenzka tónlist með svipuðum hætti og tónskáldafélög annarra menningarþjóða kynna sína tónlist.[2]

 

Tillaga þessi var samþykkt og var Jóni Nordal, Magnúsi Blöndal Jóhannssyni og Þorkeli Sigurbjörnssyni falið að vinna að framgangi málsins.

​

​

Með bréfi, dagsettu 25. janúar 1965, skipaði Menntamálaráðherra nefnd „sem athuga [skyldi] möguleika á stofnun tónverkamiðstöðvar“ sem hefði það að markmiði að vinna að kynningu íslenskrar tónlistar erlendis með líkum hætti og slíkar stöðvar í öðrum löndum. Nefndin hélt fyrsta fund sinn 1. febrúar 1965 og reyndu nefndarmenn að gera sér grein fyrir því hvernig staðið væri að kynningu á íslenskri tónlist erlendis. Útvarpsstjóri, Vilhjhjálmur Þ. Gíslason, taldi „að Ríkisútvarpið hefði yfirleitt beztu aðstöðuna til að vinna að útbreiðslu íslenskrar tónlistar erlendis, enda væri útvarpið nú búið góðum og dýrum tækjum, svo sem upptökutækjum fyrir segulbönd og plötuskurðarvél“.[3] Benti hann m.a. á að Ríkisútvarpið hefði sent lista til 99 erlendra útvarpsstöðva þar sem þeim var boðin íslensk tónlist á böndum.[4] Jón Leifs sagði þetta starf að sjálfsögðu góðra gjalda vert, en hvorki nægilega mikið né nógu vel undirbúið. Mun betur þyrfti að standa að þessum málum.

​

Á næsta fundi nefndarinnar, 17. febrúar 1965, mætti Páll Kr. Pálsson á fundinn að ósk nefndarinnar og gerði grein fyrir ferð sinni til Evrópu, þar sem hann hafði kynnt sér starfsemi MIC-stöðva. Að auki gerði hann nefndinni grein fyrir hvert almennt starfssvið MIC-stöðva erlendis væri og á hvern hátt þær ynnu saman.

​

Í gerðabók Tónskáldafélagsins er síða sem hefur yfirskriftina Stofnfundur Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, dagsett 17. janúar 1968 á Hótel Sögu, herbergi 513. Á þennan fund voru mættir: Jón Leifs, Siguringi E. Hjörleifsson, Sigursveinn D. Kristinsson, Atli Heimir Sveinsson, Sigurður Þórðarson, Jón Ásgeirsson, Karl O. Runólfsson, Jón Nordal, Jón Þórarinsson[5], Þorkell Sigurbjörnsson, Páll P. Pálsson, Jórunn Viðar, Skúli Halldórsson, Þórarinn Jónsson, Fjölnir Stefánsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Leifur Þórarinsson og Þorkell Sigurbjörnsson, sem hafði umboð frá Gunnari Reyni Sveinssyni. Engin mál voru afgreidd á fundinum en eftir miklar umræður var kosin nefnd til að endurskoða frumvarp til laga fyrir Tónverkamiðstöðina. Í hana voru kosnir Fjölnir Stefánsson, Karl O. Runólfsson og frá Ríkisútvarpinu, Þorkell Sigurbjörnsson.

 

Skömmu síðar eða 25. janúar var haldinn stjórnarfundur í Tónskáldafélaginu þar sem formaður lagði fram frumvarp til laga, ásamt breytingartillögum fyrir Íslenska tónverkamiðstöð. Á þeim fundi var ákveðið að funda með nefndinni er kosin hafði verið á „stofnfundinum“. Sá fundur var svo haldinn 31. janúar. Á aðalfundi Tónskáldafélagsins sama dag, þ.e. 31. janúar 1968, samþykkti fundurinn einróma eftirfarandi tillögu Jóns Leifs:

 

Í því trausti, að nægilegt fé sé fáanlegt fyrir stofnun og rekstur útbreiðslumiðstöðvar íslenskrar tónlistar ályktar fundurinn í tilefni af 20 ára afmæli STEFs í dag að stofna slíka miðstöð og fresta yfirstandandi aðalfundi til þess að ganga endanlega frá lögum og starfsreglum fyrir útbreiðslumiðstöðina.

​

Auk þessarar tillögu lagði formaður til að nefndin sem minnst hefur verið hér á að framan endurskoðaði drögin að stofnun miðstöðvarinnar í samráði við stjórn Tónskáldafélagsins. Var á þessum fundi ákveðið að fresta aðalfundi til 24. febrúar.

​

Þann 21. febrúar boðaði undirbúningsnefnd að stofnun Tónverkamiðstöðvar til fundar að Hótel Sögu kl. 20.30. Fundarstjóri var kjörinn Sigurður Þórðarson og fundarritari Þorkell Sigurbjörnsson. Á fundinn mættu eftirtalin tónskáld: Atli Heimir Sveinsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Fjölnir Stefánsson (með umboð frá Jórunni Viðar), Leifur Þórarinsson, Gunnar Reynir Sveinsson, Sigurður Þórðarson, Karl O. Runólfsson (með umboð frá Árna Björnssyni og Skúla Halldórssyni), Páll P. Pálsson, Þórarinn Jónsson, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal (með umboð frá Páli Ísólfssyni og Jóni Þórarinssyni, þar til Jón mætti sjálfur í fundarlok) og Þorkell Sigurbjörnsson.[6] Þetta voru allflest íslensk tónskáld eða umboðsmenn þeirra.

​

Á framhaldsaðalfundi Tónskáldafélagsins 24. febrúar var svo samþykkt tillaga þar sem lýst var ánægju yfir því að stofnuð skuli hafa verið Íslensk tónverkamiðstöð.

​

(Stytt og endursagt úr grein eftir Dr. Bjarka Sveinbjörnsson)

​

​

[1] Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 6. maí 1961.

[2] Gerðabók Tónskáldafélags Íslands 31. janúar 1963.

[3] Fyrsta fundargerð nefndar, dags. 1.2.1965.

[4] Um 20 útvarpsstöðvar svöruðu jákvætt.

[5] Jón Þórarinsson var ekki meðlimur í Tónskáldafélaginu á þessum tíma.

[6] Úr skjalasafni Ríkisútvarpsins, DHd/23.

bottom of page