top of page
Search

Íslensku tónlistarverðlaunin: Verðlaunahafar í sígildri og samtímatónlist – heildaryfirlit

Verðlaunahátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna var haldin miðvikudagskvöldið 13. mars. Þar kom berlega í ljós hve gróskumikið og gjöfult íslenskt tónlistarlíf er. Á vef ÍSTÓN er eftirfarandi umfjöllun um verðlaunahafa í flokki sígildrar og samtímatónlistar:

Í flokki sígildrar og samtímatónlistar var það Víkingur Heiðar Ólafsson sem fór heim með verðlaunagripinn fyrir plötu ársins fyrir hljóðritun á hljómborðstónlist eftir Johann Sebastian Bach. Óhætt er að fullyrða að Víkingur geri tónlist þessa mikla meistara barokksins frábær skil en Víkingur Heiðar var einnig valinn tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga en á liðnu ári hélt hann frábæra útgáfutónleika til þess að fagna útgáfu plötu með tónlist Johann Sebastians Bach auk þess sem hann frumflutti nýjan píanókonsert Hauks Tómassonar.

Spectra eftir Önnu Þorvaldsdóttur var valið tónverk ársins í sígildri og samtímatónlist en hljóðheimur þess og línur eru hvort tveggja í senn seiðandi en jafnframt ögrandi tónvefur að mati dómnefndar.

Strokkvartettinn Siggi var valinn tónlistarflytjandi ársins úr röðum hópa en kvartettinn hefur frá upphafi verið í fremstu röð kammerhópa og unnið ötullega að nýsköpun í tónlistarlífi hér á land.

Söngvari ársins var valinn Oddur Arnþór Jónsson fyrir burðarhlutverk í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason þar sem hann túlkaði hlutverk Michael stórkostlega í eftirminnilegri uppfærslu, bæði hvað varðar leik og söng.

Söngkona ársins er Hallveig Rúnarsdóttir sem blómstraði í verkefnum sínum á liðnu ári og hefur einstakt lag á að snerta hjörtu áheyrenda. Hún heillaði áhorfendur meðal annars með söng sínum í Klassíkin okkar og skemmti ungum sem öldnum í titilhlutverkinu í frumflutningi á óperunni Gilitrutt eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.

Óperan Brothers eftir Daníel Bjarnason í uppsetningu Íslensku Óperunnar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins í sígildri og samtímatónlist. Þessi uppfærsla á magnþrunginni óperu þótti stórfengleg og vel skipuð frábærum listamönnum í hverju hlutverki, bæði innan sviðs og utan. Einsöngvarar ásamt og kór Íslensku óperunnar og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn tónskáldsins Daníels Bjarnasonar sköpuðu eina eftirminnilegustu óperusýningu sem sett hefur verið upp hér á landi.

Tónlistarviðburður ársins úr flokki hátíða eru Óperudagar í Reykjavík en með fádæma framtakssemi og sterkri listrænni sýn hafa stjórnendur Óperudaga sýnt fram á nýja möguleika og hinar fjölbreyttustu birtingarmyndir óperuformsins, auk þess að fara nýstárlegar leiðir í að ná til og heilla áhorfendur.

24 views
bottom of page