top of page
Search

Íslensku tónlistarverðlaunin 2016 – verðlaunahafar

Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í gær. Í flokki sígildrar og samtímatónlistar hlutu eftirtaldir verðlaun.

 

Tónverk ársins: Hugi Guðmundsson – Hamlet in Absentia

Það er ekki í hverjum degi sem íslenskar óperur líta dagsins ljós þó svo að rofað hafi til í þeim efnum að undanförnu. Óperan Hamlet in Absentia eftir Huga Guðmundsson, sem frumflutt var í Krónborgarhöll á Sjálandi, sögusviði Hamlets, er frábær og mikilvæg viðbót við þá flóru. Verkið er afar sannfærandi tón- og sviðslistarleg heild þar sem stíleinkennum nútíma- og barokkóperu er listilega blandað saman.

nordicopera_hamlet_press
hamletinabsentiaalbertslund_mathiasloevgreenbojesen_0009-1200x630

Frá sýningu Nordic Opera á Hamlet in Absentia í Krónborgarhöll


Þann 18. maí næstkomandi gefst kostur á að sjá Hamlet in Absentia  en Íslenska óperan stendur þá fyrir óperubíói í Norðurljósum í Hörpu. Sýningin er í tengslum við Evrópska óperudaga. Sjá nánar um viðburðinn á vefsíðu Hörpu.

 

Plata ársins: Guðrún Óskarsdóttir – In Paradisum

In Paradisum er fyrsta sólóplata semballeikarans Guðrúnar Óskarsdóttur, en hún hefur lengi verið meðal fremstu semballeikara hér á landi. Tónverk disksins eru öll samin handa Guðrúnu og eitt verkanna er eftir hana sjálfa. Hér renna margir þræðir saman í frábæra heild, prýðis tónsmíðar eru frábærlega fluttar og upptakan kristaltær. Öll ytri umgjörð er til fyrirmyndar og niðurstaðan er persónulegt listaverk sem allir sem að verki komu geta verið stoltir af.

 

Söngvari ársins: Elmar Gilbertsson

Elmar hlaut verðlaunin fyrir söng sinn í hlutverki Lenskís í Évgeni Onegin eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Elmar Gilbertsson hefur á síðustu árum sannað sig sem einn af fremstu tenórsöngvurum okkar. Í hlutverki Lenskis söng hann sig enn og aftur inn í hjörtu áhorfenda. Raddfegurð og góð skil á hinum rússneska stíl einkenndu flutning hans.

 

Söngkona ársins: Þóra Einarsdóttir

Þóra hlaut verðlaunin fyrir söng sinn í hlutverki Tatjönu í í Évgeni Onegin eftir Pyotr Ilyich Tchaikovsky í uppfærslu Íslensku Óperunnar

Þóra Einarsdóttir sýndi og sannaði að hún er ein fremsta sópransöngkona okkar í dag. Þóra var einstaklega trúverðug sem hin saklausa en líka harmi þrungna unga rússneska kona. Mikið litróf raddarinnar og hrífandi leikur einkenndu flutning hennar og sérlega góð skil á rússneskri tungu. Þetta var sannur leik- og söngsigur fyrir Þóru Einarsdóttur.

 

Tónlistarflytjandi ársins: Schola Cantorum

Tuttugasta starfsár Schola Cantorum var afar öflugt. Efnisskrá kórsins var metnaðarfull og fól m.a. í sér frumflutning á Requiem eftir Sigurð Sævarsson og Fyrir ljósi myrkrið flýr eftir Huga Guðmundsson auk Sálumessu eftir Kjell Mörk Karlsen. Kórinn lauk starfsárinu með flutningi Jólaóratoríu J.S. Bach ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Hallgrímskirkju. Einsöngvarar komu úr röðum kórmeðlima og auðheyrt að í kórnum er valinn maður í hverju rúmi. Á skírdagskvöld flutti kórinn endurreisnartónlist m.a. Miserere eftir Allegri. Sá flutningur ásamt tónlistarflutningi kórsins á útgáfutónleikum disksins Meditatio sýndi gæðasöng kórsins í réttu ljósi – söng sem einkennist af einstaklega fallegri tónmyndun og samhæfingu.

 

Tónlistarviðburður ársins: Uppfærsla Íslensku óperunnar á Évgeni Onegin eftir Pyotr ilyich Tschaikovsky

Íslenska óperan flutti Évgeni Onegin í annað sinn og verður sýningin að teljast stórviðburður í sögu Íslensku óperunnar. Flutningur söngvara, kórs og hljómsveitar í styrkri leik- og hljómsveitarstjórn var af hæstu gæðum og gerði sýninguna að einni af bestu uppfærslum ÍÓ í Hörpu.  Flutningurinn á frummálinu, rússnesku, ljáði tónmáli Tschaikovskys sannan lit. Sýningin einkenndist af fegurð og fágun bæði sjón- og hljóðrænt og var einstök upplifun.

 

Bjartasta vonin: Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Ungsveitina skipa fremstu hljóðfæranemar landsins og er þeim í aðdraganda tónleika gert kleift að vinna undir leiðsögn frábærra listamanna og kynnast vinnubrögðum eins og þau gerast hjá atvinnuhljómsveitum um allan heim.

 

Heiðursverðlaun: Rut Ingólfsdóttir

Rut var konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og Bachsveitarinnar í Skálholti. Hún starfaði ennfremur í Sinfóníuhljómsveit Íslands í áratugi. Hún hefur haldið fjölda einleikstónleika, gefið út sólóplötur og fjölda hljómdiska í samstarfi við aðra. Hún er einn af tólf stofnendum Kammersveitar Reykjavíkur og hefur verið listrænn stjórnandi hennar í 40 ár. Megintilgangur með stofnun Kammersveitar Reykjavíkur var að auðga íslenskt tónlistarlíf með því að gefa áheyrendum kost á að hlýða á fyrsta flokks tónlistarflutning frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar, allt frá barokktímanum til nútímans og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri  að glíma við áhugaverð og fjölbreytt verkefni.

 

15 views
bottom of page