top of page
Search

YRKJA á Myrkum músíkdögum

YRKJA með MENGI – off venue á MMD

Miðvikudaginn 25. janúar verður verk Tómasar Manoury, YRKJUM, frumflutt. Á vordögum 2016 var Tómas valinn til þátttöku í Yrkju með Mengi, samstarfsverkefni Tónverkamiðstöðvar og Mengis. Verkefnið hófst formlega þann 31. maí síðastliðinn og hefur Tómas síðan þá unnið undir handleiðslu Skúla Sverrissonar, listræns stjórnanda Mengis. YRKJU með MENGI lýkur með tónleikunum í Mengi þar sem verk Tómasar verður frumflutt af móður tónskáldsins, Eddu Erlendsdóttur píanóleikara.

Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.000 kr. Síða viðburðarins á Facebook

 

Tómas Manoury, (f. 1979) er fransk-íslenskur tónlistarmaður. Hann spilar á ýmis blásturshljóðfæri m.a. saxófón, túbu og munnhörpu auk þess sem hann syngur og hefur sérhæft sig í yfirtóna- og barkasöng. Ásamt því að vera hjóðfæraleikari og tónskáld spilar Tómas einnig raftónlist og hefur frá 2004 þróað tilraunakennd rafeindahljóðfæri þar sem hann notar óhefðbundin viðmót með gagnvirkni og lifandi spilamennsku í huga. Verk hans hafa verið flutt í Ríkisútvarpinu og hefur hann komið fram á fjölmörgum tónleikum og tónlistarhátíðum á Íslandi og erlendis.

Hann hefur á síðustu árum komið fram undir nafninu KverK og ManKan með Guðmundi Vigni m.a í Belgíu og á Íslandi. Hann er stofnmeðlimur blásarahljómsveitarinnar Belgistan sem hefur frá 2001 haldið yfir 400 tónleika víðsvegar um Evrópu og NorðurAmeríku.Hljómsveitin spilaði við miklar vinsældir á Djasshátíð Reykjavíkur árið 2009.

Tómas spilar einnig með Guðmundi Vigni Karlssyni, (ManKan), Stórsveit Samúels Jóns Samúelssonar og með tónlistarmönnum á borð við Okay Temiz, Hayden Chisholm, Garreth Lubbe, Mathieu Ha, Alco Degurutieni, Benjamin Chaval, Michel Massot, Gangbé Brassband, David Koczij, Ivan Tirtiaux og fleiri.

Edda og Tómas frumfluttu annað verk eftir Tómas, Maijka, á Myrkum músíkdögum í fyrra og þá hafði Jónas Sen m.a. eftirfarandi um tónleikana að segja:

Á tónleikum Myrkra músikdaga í Norðurljósum í Hörpu á föstudaginn sat virðuleg kona við flygil. Á móti henni stóð ungur maður við fartölvu. Þetta voru Edda Erlendsdóttir og sonur hennar, Tómas Manoury, að frumflytja verk eftir þann síðarnefnda.Edda lék alvörugefna hljóma sem fóru inn í tölvuna með aðstoð míkrófóns. Þaðan var þeim skotið út aftur, furðulega umbreyttum. Þeir voru m.a. oft öfugir, og stundum með bergmáli. Náttúruhljóð flygilsins og hin tölvugerða útgáfa þeirra mynduðu fallega heild sem var þrungin ljóðrænu. Þetta var eins konar samtal sem var dýnamískt og lifandi. Útkoman var hástemmd og áhugaverð“.


 

Edda Erlendsdóttir hefur verið búsett í París síðan 1973 þar sem hún hefur kennt og starfað, m.a. við Tónlistarháskólann í Lyon og Tónlistarskólann í Versölum. Edda hefur haldið fjölmarga tónleika og tekið þátt í tónlistarhátíðum m.a. á Íslandi, Frakklandi, Skandinavíu, Englandi, Belgíu, Þýskalandi, Spáni, Sviss, Ítalíu, Rússlandi, Lettlandi, Úkraínu, Bandaríkjunum og í Kína. Edda tekur ríkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi m.a. á Myrkum Músikdögum, hjá Kammermúsikklúbbnum, í Salnum, á Listahátíð í Reykjavík, á Tíbrá tónleikum og með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 2011 hélt hún einleikstónleika í Hörpu á Listahátíð í Reykjavík og vígði um leið nýjan Steinway flygil í Kaldalóni.

Efnisskrár hennar spanna fyrstu verkin skrifuð fyrir fortepíanó (C.P.E.Bach) allt til samtímatónlistar og hafa vakið athygli fyrir frumleika. Hún fumflutti m.a. á Íslandi Þrjár Prelúdíur eftir Henri Dutilleux og Sónötu nr. 1 eftir Pierre Boulez og Kammerkonsert fyrir fiðlu, píanó og 13 blásara eftir Alban Berg með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Edda Erlendsdóttir átti frumkvæði að árlegum kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri og var listrænn stjórnandi í 15 ár. Hún er einnig meðlimur í kammerhópnum Le Grand Tango sem undir stjórn Oliviers Manoury bandoneonleikara hefur sérhæft sig í flutningi á argentískum tangó.

Edda hefur gefið út diska með píanóverkum eftir C.P.E.Bach, Grieg, Haydn, og Tchaikovksky Schubert, Liszt, Schönberg og Berg sem hlotið hafa viðurkenningu og lof gagnrýnenda. Diskur hennar með 4 píanókonsertum eftir Haydn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Kurt Kopecky hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2010.

 

YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir ný tónskáld. Verkefnið parar saman valin tónskáld úr ólíkum áttum við úrval íslenskra listastofnanna. Markmið Yrkju er að veita tónskáldum hagnýta reynslu á fyrri hluta starfsferils þeirra – brúa bilið milli háskólanáms og starfsferils. Verkefnið undirbýr tónskáldin fyrir faglega vinnu með stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Tónskáldin fá þannig tækifæri til að þróa hæfileika og listrænan metnað, fá starfsreynslu og mynda mikilvæg tengsl innan tónlistargeirans. Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og eru þátttakendur í YRKJU hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. YRKJA felur m.a. í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldins ásamt því að standa að fundum allra YRKJU-tónskáldanna þar sem þau deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.

Yrkja nýtur styrkja frá Reykjavíkurborg og Tónskáldasjóði RÚV.

5 views
bottom of page