top of page
Search

Yrkja V með Sinfóníuhljómsveit Íslands


Tónverkamiðstöð og Sinfóníuhljómsveit Íslands kalla eftir umsóknum frá tónskáldum um þátttöku í YRKJU með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Umsóknarfrestur er til miðnættis 1. mars 2019.


YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar og veitir tónskáldum sem stödd eru á fyrri hluta starfsferils síns, tækifæri til að vinna með úrvali íslenskra listastofnana.

Að þessu sinni bjóða Tónverkamiðstöð og Sinfóníuhljómsveit Íslands tveimur tónskáldum að verja tímabilinu frá 10. apríl til 31. janúar 2020 í YRKJU undir handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Tónskáldin munu fá innsýn í innra starf hljómsveitarinnar, þróa færni sína í að semja verk fyrir sinfóníuhljómsveit og að endingu verða verkin flutt á sérstökum tónleikum á Myrkum músíkdögum 2020. Tónskáldin munu jafnframt fá tækifæri til að vinna náið með hljóðfæraleikurum í sérstakri tónskáldastofu. Verkefnastjórn YRKJU hvetur bæði karla og konur að sækja um.

Markmið YRKJU er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið hornsteinn í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsferilsins og brúar bilið milli háskólanáms og starfsferils með því að undirbúa tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Í YRKJU fær tónskáldið tækifæri til að þróa hæfileika sína og listrænan metnað, öðlast starfsreynslu og mynda tengsl í tónlistargeiranum.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. Við viljum hlúa að starfsferli tónskáldanna og mun því verkefnið fela í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldins og mun miðstöðin skipuleggja fund þar sem tónskáldin í verkefninu hittast og deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.


Hver getur sótt um?

  1. Verkefnið er öllum opið óháð aldri. Verkefnið er ætlað tónskáldum sem eru á fyrri hluta starfsferilsins en umsækjandi verður að hafa útskrifast með gráðu í tónsmíðum eða tengdu námi á síðustu 10 árum.

  2. Umsækjandi skuldbindur sig að mæta í öll viðtöl, vinnustofur, tónskáldastofur og tónskáldahittinga verkefnisins.

  3. Umsækjandi skuldbindur sig til að gefa verkefninu góðan tíma og má ekki vera í of mörgum öðrum verkefnum á sama tíma.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 1. mars 2019.

Umsóknir sendist með tölvupósti til Valgerðar G. Halldórsdóttur framkvæmdastjóra Tónverkamiðstöðvar á netfangið vala@mic.is merkt „YRKJA V MEÐ SÍ, UMSÓKN“ í efnislínu (subject).

Vinsamlegast kynnið ykkur vel verkefnislýsingu, helstu dagsetningar og skilyrði fyrir þátttöku í meðfylgjandi skjali: YRKJA V með SÍ: Nánari verkefnislýsing og upplýsingar um þátttökuskilyrði 

Comments


bottom of page