YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir tónskáld. Verkefnið parar saman valin tónskáld úr ólíkum áttum við úrval íslenskra listastofnanna. Á þessu starfsári fá tónskáld tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Jaðarberi og Nordic Affect.
Hér er auglýst eftir umsóknum um þátttöku í verkefni með kammerhópnum Nordic Affect. Starf þeirra hefur aflað þeim viðurkenningar innan lands og utan, þar á meðal tilnefningar til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs auk þess sem hópurinn var valinn Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra. Nordic Affect hefur lagt mikla áherslu á að stuðla að sköpun nýrrar tónlistar og hefur frumflutt fjölda verka. Nýjasta plata hópsins Clockworking dregur til dæmis upp spennandi mynd af íslenskri tónsköpun og var meðal annars valin plata vikunnar í hinum virta miðli Q2 Music.
Markmið Yrkju er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið að hornsteini í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsævi sinnar, það brúar bilið milli háskólanáms og starfsferils. Verkefnið undirbýr tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Þátttaka í verkefninu getur haft áhrif á tónskáldið hvað varðar þróun hæfileika, listrænan metnað, starfsreynslu og tengslamyndun í tónlistargeiranum.
Tónverkamiðstöð og Nordic Affect bjóða upp á tækifæri fyrir eitt tónskáld til að starfa náið með meðlimum hópsins. Á tímabilinu, sem mun spanna 8-10 mánuði, fær viðkomandi tækifæri til að þróa færni í að skrifa fyrir hljóðfæri hópsins og fá innsýn í þá hugmyndafræði sem býr að baki starfi Nordic Affect. Jafnframt mun viðkomandi fá handleiðslu hjá Huga Guðmundssyni tónskáldi en skrif hans fyrir Nordic Affect hafa m.a. hlotið viðurkenningu á Alþjóðlega tónskáldaþinginu.
Markmiðið með YRKJU er að hvetja tónskáld til að þróa hugmyndir sínar til listsköpunar, hlúa að starfsferli tónskálda og felur verkefnið m.a. í sér ráðgefandi viðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldsins. Tónverkamiðstöð skipuleggur einnig fundi þar sem tónskáldin í öllum Yrkju verkefnunum hittast og deila reynslu sinni og skiptast á hugmyndum.
YRKJA með Nordic Affect mun því fela í sér m.a. tvær tónskáldastofur og handleiðslu og lýkur síðan með tónleikum. Umsóknarfrestur til og með 10. nóvember 2015.
ATH! Verkefnið er opið öllum óháð aldri sem hafa að lágmarki lokið grunnnámi í tónsmíðum eða tengdu námi og hafa útskrifast úr því eða framhaldsnámi á síðustu 10 árum. Viðkomandi má vera í námi svo framarlega sem hún/hann hafi tíma til að sinna verkefninu.
Comentarios