top of page
Search

Yrkja – Tónverkamiðstöð og Jaðarber kalla eftir umsóknum um þátttöku í Yrkju

Yrkja er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir tónskáld. Verkefnið parar saman valin tónskáld úr ólíkum áttum við úrval íslenskra listastofnanna. Á þessu starfsári fá tónskáld tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Jaðarberi og Nordic Affect. Hér er auglýst eftir umsóknum um þátttöku í verkefni með tónlistarhópnum Jaðarberi, sem stendur fyrir reglulegum viðburðum í Listasafni Reykjavíkur. Jaðarber samanstendur af hópi flytjenda og tónskálda sem leitast við að endurskoða „normið“ með því að má út landamæri. Einnig hvetur Jaðarber til þess að nota ný tól til tónlistarsköpunar og tónlistarflutnings.

Markmið Yrkju er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið að hornsteini í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsævi sinnar, það brúar bilið milli háskólanáms og starfsferils. Verkefnið undirbýr tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Þátttaka í verkefninu getur haft áhrif á tónskáldið hvað varðar þróun hæfileika, listrænan metnað, starfsreynslu og tengslamyndun í tónlistargeiranum.

Tónverkamiðstöð og Jaðarber bjóða upp á tækifæri fyrir eitt tónskáld til að starfa náið með listrænum stjórnendum Jaðarbers og völdum flytjendum í einn vetur. Þar munu þau þróa færni sína í að móta og skrifa tilraunakennda tónlist og frumflytja nýtt verk.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. Við viljum hlúa að starfsferli tónskáldanna og mun því verkefnið fela í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldsins og mun miðstöðin skipuleggja fund þar sem tónskáldin í öllum Yrkju verkefnunum hittast og deila reynslu sinni og skiptast á hugmyndum.

ATH! Verkefnið er opið öllum óháð aldri sem hafa að lágmarki lokið grunnnámi í tónsmíðum eða tengdu námi og hafa útskrifast úr því eða framhaldsnámi á síðustu 10 árum. Viðkomandi má vera í námi svo framarlega sem hún/hann hafi tíma til að sinna verkefninu.

Kommentare


Die Kommentarfunktion wurde abgeschaltet.
bottom of page