top of page
Search

YRKJA II með Sinfóníuhljómsveit Íslands

FinnurÞRÁINN2

Frestur til að sækja um þátttöku í Yrkju II með Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ), starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar, rann út á miðnætti 3. apríl síðastliðinn. Níu umsóknir bárust og voru allar lagðar fyrir dómnefnd á fundi þann 18. apríl að afstöðnu skoðunarferli. Í dómnefndinni sátu Anna Þorvaldsdóttir, Hrafnkell Orri Egilsson, Una Sveinbjarnardóttir, Þuríður Jónsdóttir og Daníel Bjarnason sem jafnframt var formaður dómnefndar.

Afar erfitt var fyrir dómnefndina að velja einungis eitt tónskáld til þátttöku. Dómnefnd mæltist þess vegna til að tveimur tónskáldum yrði boðin þátttaka í YRKJU-verkefninu að þessu sinni og varð niðurstaðan sú að bjóða þeim Þráni Hjálmarssyni og Finni Karlssyni báðum til þátttöku eða eins og segir í umsögn:

Dómnefnd hefur farið yfir umsóknir um þátttöku í YRKJU II með Sinfóníuhljómsveit Íslands og metur tvo umsækjendur hæfasta. Dómnefnd var falið að velja eitt tónskáld en í ljósi styrkleika tveggja umsækjenda, Þráins Hjálmarssonar og Finns Karlssonar, er mælt með að þeim verði báðum boðin þátttaka í verkefninu ef þess er kostur.

Við bjóðum Þráin og Finn velkomna í YRKJU.

Verkefnið hefst formlega þann 7. maí næstkomandi og mun standa í um níu mánuði. Verkefninu lýkur með tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar en þá mun hljómsveitin frumflytja YRKJU-verk Þráins og Finns ásamt verki Þórunnar Grétu Sigurðardóttur sem tók þátt í YRKJU I með SÍ.

留言


留言功能已關閉。
bottom of page