top of page
Search

YRKJA á Myrkum músíkdögum

Uppskerutónleikar YRKJU með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Föstudaginn 27. janúar næstkomandi fara fram uppskerutónleikar YRKJU II með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tónleikarnir hefjast kl. 12 á hádegi, í Norðurljósum í Hörpu.

YRKJA með Sinfóníuhljómsveit Íslands veitti þremur tónskáldum – þeim Finni Karlssyni, Þráni Hjálmarssyni og Þórunni Grétu Sigurðardóttur – tækifæri til að vinna með hljómsveitinni undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar tónskálds og hljómsveitarstjóra. Þessi tími með Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur veitt þeim einstakt tækifæri til að þróa færni sína í að semja verk fyrir stóra hljómsveit og vinna með hljóðfæraleikurum í sérstökum tónskáldastofum, ásamt því að þau hafa fengið innsýn í innra starf hljómsveitarinnar. Afraksturinn eru þrjú glæný, íslensk hljómsveitarverk sem frumflutt verða á Myrkum músíkdögum 2017.

YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir tónskáld. Verkefnið parar saman valin tónskáld úr ólíkum áttum við úrval íslenskra listastofnanna. Markmið Yrkju er að veita tónskáldum hagnýta reynslu á fyrri hluta starfsferils þeirra – brúa bilið milli háskólanáms og starfsferils. Verkefnið undirbýr tónskáldin fyrir faglega vinnu með stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Tónskáldin fá þannig tækifæri til að þróa hæfileika og listrænan metnað, fá starfsreynslu og mynda mikilvæg tengsl innan tónlistargeirans.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og eru þátttakendur í YRKJU hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. YRKJA felur í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð ásamt því að standa að fundum allra YRKJU-tónskáldanna þar sem þau deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.

 

Finnur Karlsson

Finnur Karlsson lauk bakkalárprófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslans vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum frá Konunglega danska konservatoríinu vorið 2015. Helstu tónsmíðakennarar Finns hafa verið Hans Abrahamsen, Úlfar Ingi Haraldsson, Atli Ingólfsson, Simon Løffler og Niels Rosing-Schow. Finnur leggur nú stund á frekara framhaldsnám (d. Solistklassen) í tónsmíðum við Konunglega danska konservatoríið.

Verk Finns hafa meðal annars verið flutt af Barokkbandinu Brák, Copenhagen Phil, Decoda, Elektra Ensemble, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Slowind, strokkvartettinum Sigga, TAK og Ventus. Finnur var staðartónskáld Sumartónleika í Skálholtskirkju 2015, en verkið sem pantað var af hátíðinni, Fold, var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2015.

Finnur er meðlimur í tónskáldakollektívinu Errata ásamt Báru Gísladóttur, Halldóri Smárasyni, Hauki Þór Harðarsyni og Petter Ekman.

 

Þráinn Hjálmarsson

Tónlist Þráins hefur verið lýst af gagnrýnendum sem “innhverfri, sveimtónlistarlegri, fallega unninni, fíngerðri og nostursamlegri” sem og “heillandi og töfrandi!”.

Verk Þráins hafa verið flutt víða um heim af hinum ýmsu tilefnum af ýmsum flytjendum og hljóðfærahópum. Má þar nefna Basel Sinfonietta, BBC Scottish Symphony Orchestra, Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Íslands, CAPUT, Njúton, Athelas sinfonietta, Uusinta ensemble, Ensemble Klang, Nordic Affect auk margra annarra.

Þá hefur tónlist hans verið leikin við ýmis tækifæri á borð við hátíðir eins og Norræna Músíkdaga, CULTURESCAPES 2015 – Island, Nordlichter Biennal, Myrka músíkdaga, Tectonics Reykjavík og Glasgow, UNM auk fjölda annarra.

Þráinn nam tónsmíðar við Konunglega konservatoríið í Den Haag og við Listaháskóla Íslands á árunum 2009-2011. Þráinn er meðlimur tónskáldasamtakanna S.L.Á.T.U.R. og heldur hann utanum tónleikaröðina Hljóðön, sem tileinkuð er samtímatónlist og haldin er af Lista- og menningarmiðstöð Hafnarfjarðar, Hafnarborg.

Á meðal þeirra þverfaglegra verkefna sem Þráinn hefur unnið að, má telja þróun hljóðfærisins Þránófónn, í samstarfi við myndlistarmanninn Halldór Úlfarsson og tónskáldið Inga Garðar Erlendsson, sem og gerð myndlistarverksins Lágmynd [2015] í samstarfi við myndlistarmanninn Sigurð Guðjónsson.

 

Þórunn Gréta Sigurðardóttir

Þórunn Gréta Sigurðardóttir lauk diploma prófi í tónsmíðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands og M.Mus. gráðu frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg. Hún hefur auk þess sótt masterklassa og vinnustofur í tónsmíðum, píanóleik og spuna á Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi. Hún hefur rannsakað ýmis svið samtíma tónleikhúss og samband tónlistar við texta og málhljóð. Þórunn Gréta hefur verið formaður Tónskáldafélags Íslands frá árinu 2015. 

10 views

Comments


bottom of page