top of page
Search

Verðlaunahafar Íslensku tónlistarverðlaunanna

Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í Hörpu í vikunni og hlutu eftirtaldir verðlaun í sígildri og samtímatónlist fyrir tónlistarárið 2019.

Í sígildri og samtímatónlist var Crevace, konsert fyrir flautu og fagott eftir Páll Ragnar Pálsson var valið tónverk ársins. Hér fléttar Páll Ragnar tveimur djörfum einleikspörtum saman við framsækin og hugvitssöm hljómsveitarskrif. Tónmálið er hvort tveggja, persónulegt og myndrænt og í verkinu nær hann að tengja saman tóna og þann kraft sem ólgar í iðrum jarðar.


Verk Páls eru aðgengileg í vefverslun Tónverkamiðstöðvar.




Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir var valin bjartasta vonin í sígildri og samtímatónlist. Ingibjörg Ýr er tónskáld og hefur notið vaxandi athygli á undanförnum misserum. Í verkum hennar ber mikið á samspili texta og leikrænu við tónlist þar sem útkoman verður oft óvenjuleg. Verkið O var tilnefnt á Alþjóðlega tónskáldaþingið en verkið var samið innan vébanda Yrkju, starfsþróunarverkefnis Tónverkamiðstöðvar fyrir ný tónskáld. Ingibjörg vann að verkinu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutti verkið á Myrkum músíkdögum. Meðal annarra sem frumfluttu verk eftir hana á árinu eru Kammersveit Reykjavíkur og Strokkvartettinn Siggi. Ingibjörg Ýr er jafnframt hluti listahópsins Hlakkar sem staðið hefur fyrir viðburðum á sviði tilraunatónlistar.


O er fáanlegt hjá Tónverkamiðstöð og er hægt að skoða raddskrá að verkinu hér.



Concurrence með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar valin plata ársins. Þetta vandaða hljóðrit heillaði dómnefndina sem og aðra unnendur góðrar tónlistar. Concurrence þykir sýna margbreytileika íslenskrar samtímatónlistar í sinni bestu mynd. Flutningur Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Daníels er fyrsta flokks og sérstaka athygli vekur upptökustjórnin sem er framsækin og metnaðarfull.


Tónlistarviðburður ársins var valin Hljóðön – Sýning tónlistar sem flutt var í Hafnarborg en sýningin þótti spennandi og frumleg með afar áhrifaríkum upphafstónleikum þar sem vel var unnið með samspil tónlistar og rýmis. Listrænn stjórnandi Hljóðanar er Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.



Myrkir músíkdagar hrepptu hnossið sem tónlistarhátíð ársins úr flokki hátíða en nýju lífi hefur verið blásið í Myrka músíkdaga sem þóttu sérlega glæsilegir í fyrra og sýndi hátíðin vel fjölbreytni nýsköpunar í íslenskri tónlist.





Tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga var valinn Bjarni Frímann Bjarnason en hann er afar fjölhæfur listamaður og kraftar hans nýtast vel íslensku tónlistarlífi. Bjarni Frímann þótti sýna einstaka hæfni sem listrænn stjórnandi í störfum sínum fyrir Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands á liðnu ári og er vel að verðlaununum kominn.



Elektra Ensemble hlaut verðlaunin sem tónlistarflytjandi ársins úr flokki tónlistarhópa en Elektra Ensamble hefur í áratug verið eitt af flaggskipum íslenskrar samtímatónlistar. Hópinn skipa fimm framúrskarandi tónlistarkonur sem eru ófeimnar við tilraunir og í fyrra var haldið upp á tíu ára afmælið með útgáfu nýrrar plötu og glæsilegum útgáfutónleikum.

Söngkona ársins er Dísella Lárusdóttir en hún vakti sérstaka athygli á árinu fyrir afburða frammistöðu á sviði Metropolitan óperunnar í New York þar sem hún fór með hlutverk Tye drottningar í óperunni Akhnaten​ eftir Philip Glass. Söngvari ársins var svo Benedikt Kristjánsson, en flutningur hans og samverkamanna hans á ​Jóhannesarpassíu​ Bachs vakti mikla athygli og hrifningu erlendis á árinu. Benedikt gaf einnig út einsöngsplötu þar sem fléttað er saman íslenskum þjóðlögum og sönglögum eftir Schubert svo hvort tveggja birtist í nýju ljósi.

Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, hlaut svo heiðursverðlaun Samtóns á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár.

Mynd: Baldur Kristjánsson




Alls voru veitt 39 verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020 fyrir tónlistarárið 2019. Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum en að baki Samtóni standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands. Markmið Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum íslenskra tónlistarmanna og fagaðila, styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks.

Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.










53 views

Comments


bottom of page