top of page
Search

Uppskerutónleikar YRKJU með Sinfóníuhljómsveit Íslands

TÓNSKÁLDIN OG VERKIN

Miðvikudaginn 13. apríl fara fram fyrstu uppskerutónleikar YRKJU með Sinfóníuhljómsveit Íslands. YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir ný tónskáld og veitir þeim tækifæri til að vinna með fjölbreyttri flóru listastofnana. Undanfarna níu mánuði hafa þrjú tónskáld, þau Gunnar Karel Másson, Halldór Smárason og Þórunn Gréta Sigurðardóttir, unnið með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Uppskeran er þrjú glæný hljómsveitarverk. Verk Þórunnar bíður flutnings á næstu YRKJU-tónleikum en verk þeirra Halldórs og Gunnars Karels munu hljóma á tónleikunum í Eldborg í Hörpu. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.

EventPhoto_fb_Sinfo

Halldór Smárason (t.v.) og Gunnar Karel Másson


GUNNAR KAREL MÁSSON

Gunnar Karel (1984) fæddist í Reykjavík. Hann hóf snemma tónlistarnám og leikur á mörg mismunandi hljóðfæri. Gunnar Karel stundaði tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands hjá Tryggva M. Baldvinssyni og Úlfari Inga Haraldssyni og lauk þaðan BA-gráðu 2010. Að því loknu hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann lauk M.Mus. 2012 og Solist diploma 2014. Kennarar hans í Kaupmannahöfn voru Bent Sørensen, Hans Abrahamsen, Jeppe Just Christensen, Juliana Hodkinson og Niels Rosing-Schow.

Sem tónskáld hefur Gunnar fram að þessu einbeitt sér fyrst og fremst að kammertónlist þar sem honum finnst tónlistin fá þar þá athygli sem að hún þarfnast. Fyrir honum er sambandið við flytjandann eitt það mikilvægasta í ferlinu við það að skapa nýtt verk, og hefur hann átt gæfuríkt samstarf við ýmsa flytjendur; Caput, Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara, Anrijs Ivanovskis fagottleikara, Zoe Martlew sellóleikara, Shasta Ellenbogen víóluleikara, XelmYa trio og fleiri. Tónlist hans hefur verið flutt víða m.a. á UNM í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Noregi og Íslandi, Myrkum músíkdögum, Shanghai New Music Week, Tête à tête í London, Aarhus Jazzfestival, Ensems í Valencia, Þjóðlagahátiðinni á Siglufirði, tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði, Klangwerkstatt í Berlín og Sommerliche Musiktage i Hitzacker.

Fyrir utan tónsmíðarnar þá hefur Gunnar einnig haslað sér völl sem tónleikahaldari. Sérstaklega má nefna Sonic-hátíðina í Kaup­mannahöfn, sem hann setti á laggirnar ásamt fleirum árið 2012. Gunnar er einn af listrænum stjórnendum tónleikahópsins Jaðarbers.

Gunnar er meðlimur í Danska Tónskáldafélaginu, leikhópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R.

 

TÓNSKÁLDIÐ UM VERKIÐ

Brim

Hafið og hreyfingar þess voru mér einkum hugleiknar við skrifin á Brimi. Hvernig öldugangurinn hreyfist upp og niður rétt eins og lífið gerir. Ég vildi fyrst og fremst vinna út frá eigin innsæi í stað þess að vinna með einhver kerfi, eða formúlur, þar sem þetta verk stendur mér mjög nærri. Hljóðheimurinn er brotakenndur og samanstendur af nokkrum flekum sem reynt er að setja í mismunandi samhengi. Út úr þeirri textúru birtist himneskur lúðrahljómur sem endar svo í fjöruborðinu.

Verkið er tileinkað minningu frænku minnar, Sonju Georgsdóttur, sem lést þann 21. september á síðasta ári.

– GKM

 

HALLDÓR SMÁRASON

Halldór Smárason (1989) lauk framhaldsprófi í píanóleik samfara stúdentsprófi (sem dux scholae) vorið 2009. Hann lauk bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum við Manhattan School of Music vorið 2014, þá sem Fulbright-styrkþegi. Vorið 2015 dvaldist hann í Vínarborg og stundaði starfsnám hjá tónskáldinu Beat Furrer. Í gegnum árin hafa aðalkennarar Halldórs verið tónskáldin Reiko Füting, Atli Ingólfsson, Tryggvi M. Baldvinsson og píanóleikarinn Sigríður Ragnarsdóttir.

Halldór hefur m.a. unnið með Psappha, Decoda, Caput, Oslo Sinfonietta, Daniel Lippel og MSM Symphony, og hlaut fyrstu verðlaun í Manhattan Prize. Þá hefur hann verið staðartónskáld á tónlistarhátíðunum Við Djúpið 2012, UNM 2013, 2014 og 2015, og Podium Festival 2014.

Halldór hefur haft mörg járn í eldinum undanfarið. Auk þátttöku í YRKJU með Sinfóníuhljómsveit Íslands var hann valinn til að taka þátt i masterklass með Útvarpssinfóníuhljómsveitinni í Stuttgart og átti tvö verk á Myrkum músíkdögum 2016. Á þessu ári bíða hans pantanir frá nokkrum hópum og einleikurum og má þar nefna verk fyrir Ensemble InterContemporain í París, masterklass með Fílharmóníu franska ríkisútvarpsins (Orchestre philharmonique de Radio France) undir handleiðslu tónskáldsins Beat Furrer, sólóverk fyrir Sæunni Þorsteinsdóttur sellóleikara, strengjakvartett fyrir Strokkvartettinn Sigga og loks hátíðarverk fyrir Landsmót Gígjunnar (Sambands íslenskra kvennakóra) 2017.

Auk tónsmíða er Halldór einnig virkur píanóleikari og útsetjari og hefur komið margoft fram við hin ýmsu tilefni og leikið inn á hljómdiska.

 

TÓNSKÁLDIÐ UM VERKIÐ

rekast

Undirstaða verksins er djassútgáfa af þekktu íslensku dægurlagi sem hefur verið teygð yfir langan tíma og þannig er hráefni verksins sprottið úr margskonar tónlistarstílum. Á yfirborðinu liðast verkið hægt áfram en í undirlaginu má greina spennu sem stundum er sett í forgrunn. Ég leitast við að kafa ofan í mismunandi víddir eða svæði innan verksins, oft án viðvörunar, ekki ólíkt því þegar lífverur eru skoðaðar í smásjá og þysjað er að eða frá.

– HS

bottom of page