Opið fyrir umsóknir
Nýlega ákveðið að hleypa nokkurs konar tilraunaverkefni af stað, UNG-YRKJU þar sem leitað er í brunn næstu kynslóðar tónskálda með það fyrir augum að finna þá aðila sem þegar brenna fyrir því að semja verk fyrir hljómsveit.
Hér er því auglýst eftir umsóknum um þátttöku í UNG-YRKJU með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem stendur yfir frá 3. apríl 2020 til 29. janúar 2021. UNG-YRKJU lýkur með frumflutningi verka á sérstökum UNG-YRKJU tónleikum SÍ á Myrkum músíkdögum 2021.
Markmið YRKJU og UNG-YRKJU er að veita tónskáldum hagnýta reynslu. Verkefnið undirbýr tónskáld fyrir faglega vinnu með hljómsveitum, kammersveitum, tónlistarhópum, hátíðum og öðrum listastofnunum. Tónskáld fá þannig tækifæri til að þróa hæfileika og listrænan metnað, fá starfsreynslu og mynda mikilvæg tengsl innan tónlistargeirans. Að þessu sinni bjóða Tónverkamiðstöð og Sinfóníuhljómsveit Íslands, í samstarfi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands, tónsmíðanemum á háskólastigi að verja tímabilinu frá 3. apríl 2020 til 29. janúar 2021 í UNG-YRKJU undir handleiðslu Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskálds Sinfóníuhljómsveitarinnar. Tónsmíðanemarnir munu fá innsýn í innra starf hljómsveitarinnar, þróa færni sína í að semja verk fyrir sinfóníuhljómsveit og að endingu verða verkin flutt á sérstökum tónleikum á Myrkum músíkdögum 2021. Tónskáldin munu jafnframt fá tækifæri til að vinna náið með hljóðfæraleikurum í sérstökum tónskáldastofum. Verkefnisstjórn YRKJU hvetur bæði karla og konur að sækja um. Smellið hér til að lesa verkefnislýsingu og umsóknarkröfur.
Valgerður G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar veitir upplýsingar um verkefnið. Vinsamlegast sendið póst á vala@mic.is.
Comments