top of page
Search

Tilnefningar til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og Grímuverðlaunin

Það er afar ánægjulegt að fylgjast með velgengni íslenskra tónskálda. Flestir hafa fylgst með velgengni Hildar Guðnadóttur undanfarið en hún hefur brotið blað í sögu kvikmyndatónlistar. Gyða Valtýsdóttir hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs á síðasta ári, en í dag kynntu Anna Þorvaldsdóttir tónskáld og fyrrum verðlaunahafi og breski blaðamaðurinn Andrew Mellor tilnefningar til verðlaunanna fyrir árið 2020. Tólf verk eru tilnefnd, þar af tvö eftir íslensk tónskáld: Chernobyl, tónlist eftir Hildi Guðnadóttur við samnefnda sjónvarpsseríu og Lendh eftir Veronique Vöku en verkið samdi hún fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutti verkið á Myrkum músíkdögum 2019.

Okkur er sérlega ljúft að geta þess að Veronique Vaka tók þátt í Yrkju III með Sinfóníuhljómsveit Íslands, starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir ný tónskáld sem fram fór veturinn 2017-2018 undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar. Yfirlit yfir verk Veronique Vöku í vefverslun Tónverkamiðstöðvar eru á eftir farandi slóð: http://shop.mic.is/OriginatorDetail/64869


Í gær hlaut annað Yrkjutónskáld verðskuldaða viðurkenningu því Gunnar Karel Másson, hlaut Grímuna – Íslensku sviðslistaverðlaunin fyrir tónlist ársins. Gunnar hlaut verðlaunin fyrir verkið Eyður. Sviðsetning sem Marmarabörn settu upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Gunnar tók þátt í fyrsta Yrkjuverkefninu með Sinfóníuhljómsveit Íslands veturinn 2015–2016 undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar.

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Um Yrkju á vef Tónverkamiðstöðvar



29 views

Commentaires


bottom of page