Search

Tilnefningar til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs og Grímuverðlaunin

Það er afar ánægjulegt að fylgjast með velgengni íslenskra tónskálda. Flestir hafa fylgst með velgengni Hildar Guðnadóttur undanfarið en hún hefur brotið blað í sögu kvikmyndatónlistar. Gyða Valtýsdóttir hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs á síðasta ári, en í dag kynntu Anna Þorvaldsdóttir tónskáld og fyrrum verðlaunahafi og breski blaðamaðurinn Andrew Mellor tilnefningar til verðlaunanna fyrir árið 2020. Tólf verk eru tilnefnd, þar af tvö eftir íslensk tónskáld: Chernobyl, tónlist eftir Hildi Guðnadóttur við samnefnda sjónvarpsseríu og Lendh eftir Veronique Vöku en verkið samdi hún fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem frumflutti verkið á Myrkum músíkdögum 2019.

Okkur er sérlega ljúft að geta þess að Veronique Vaka tók þátt í Yrkju III með Sinfóníuhljómsveit Íslands, starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir ný tónskáld sem fram fór veturinn 2017-2018 undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar. Yfirlit yfir verk Veronique Vöku í vefverslun Tónverkamiðstöðvar eru á eftir farandi slóð: http://shop.mic.is/OriginatorDetail/64869

Frétt um tilnefningarnar á vef Norðurlandaráðs Um Veronique Vöku og Lendh á vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands


Í gær hlaut annað Yrkjutónskáld verðskuldaða viðurkenningu því Gunnar Karel Másson, hlaut Grímuna – Íslensku sviðslistaverðlaunin fyrir tónlist ársins. Gunnar hlaut verðlaunin fyrir verkið Eyður. Sviðsetning sem Marmarabörn settu upp í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Gunnar tók þátt í fyrsta Yrkjuverkefninu með Sinfóníuhljómsveit Íslands veturinn 2015–2016 undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar.

Hér má lesa nánar um hverjir hlutu Grímuna.

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . Um Yrkju á vef Tónverkamiðstöðvar


27 views