Tónverk 20 / 21 er nýtt tónsmíðaverkefni á vegum Salarins, stofnað í þeim tilgangi að stuðla að frumsköpun í tónverkagerð og að kynna íslensk tónskáld.
Tónskáldin Ásbjörg Jónsdóttir, Sigurður Árni Jónsson, Gunnar Karel Másson og María Huld Markan Sigfúsdóttir voru á dögunum valin úr hópi sextán umsækjenda til að semja strengjakvartetta fyrir Strokkvartettinn Sigga með Salinn sérstaklega í huga.
Verkin verða frumflutt í Salnum þriðjudaginn 11. maí og hefjast tónleikarnir kl. 19.30.
UM VERKIN
Hugleiðing um hlustun, áferð og efni
Ásbjörg Jónsdóttir
Verkið er innblásið af arkitektúr salarins þar sem áhersla er lögð á íslenskan efnivið. Það er rekaviður frá Langanesi utan á byggingunni, grjót úr grunni hússins í gólfinu og greni úr Skorradal á innveggjum. Verkið er unnið út frá áferð, tilfinningu fyrir efninu, uppruna þess og eiginleikum. Ferli eiga sér stað í tónlistinni sem ýmist lýsa úrvinnslu, vinnsluaðferðum eða hversu mikið þau eru meðhöndluð og hver lokaútkoman er.
Senza di te
Gunnar Karel Másson
Snemma í ferlinu ákvað ég að leita að titli sem gæti fangað þá stemmningu sem ég er að leita að í verkinu; Tilfinningin að við séum föst á einhverjum einum stað en samt á ferð.
Sjálfur titillinn, Senza di te, er fenginn úr ítalskri aríu og þýðir bókstaflega án þín, og eins og titillinn gefur til kynna, fjallar verkið um missi og þrá sem við öll upplifum í því statíska ferðalagi sem lífið er. Því öll erum við að leita að einhverju sem okkur skortir, einhverju litlu atriði, sem við eltumst við eins og hundur að elta halann á sjálfum sér. Því meira sem við eltumst við það sem okkur skortir, rennur smátt og smátt upp fyrir okkur ljós að við erum enn á sama stað, en samt allt svo breytt. Það sem við þráðum áður er orðið að einhverju öðru, einhverju nýju en samt gömlu.
Horfnir skógar
María Huld Markan Sigfúsdóttir
Verkið Horfnir skógar er samið útfrá hugleiðingum mínum og rannsóknargrúski um hina ýmsu skóga sem ekki eru lengur til en hafa á einn eða annan hátt markað spor í söguna. Þessar pælingar ná einnig til viðarins í hljóðfærunum sem verkið er leikið á, skóganna sem þau eru smíðuð úr og að sum tré geta orðið ódauðleg í okkar menningarlega samhengi í formi ómetanlegra strengjahljóðfæra.
Verkið er í fjórum köflum sem allir vísa með heitum sínum í það skógarumhverfi sem þeir hverfast um. Holað innan er tilvísun í steingervingaholur sem finnast á íslandi eftir skóga sem runnu undir hraun fyrir milljónum ára. Milli fjalls og .... vísar til ósnortinna skóga landsins fyrir landnám og Betula er latneska tegundaheiti birkis. La Forêt er það nafn sem hið mikla eikartréverk innan í þaki Notre Dame var þekkt undir.
Mere-Exposure
Sigurður Árni Jónsson
Mere-Exposure er nefnt eftir hinum svokallaða Mere-exposure effect, sálfræðilegu fyrirbæri sem reynir að útskýra tengsl jákvæðrar upplifunar okkar á hlutum í samræmi við tíðni upplifana á sama hlut. Tenging milli titils og verksins er óbein í besta falli, en grunnhugmyndir verksins voru vangaveltur um áhrif birtu á rými - líkamlega (fýsísku) rými og tilfinningalegu rými. Tónsmíðin er ekki skipulögð að neinu stóru leyti (þrátt fyrir slíkar fyrirætlanir - covid og allt það) en hún leikur sér með ómblíðu og ómstríðu, stöðugleika og óstöðugleika, og skipulagða óreiðu og hvíld, og reynir að hrífa frá víðáttu til þröngs ljósops, og fram og til baka.
TÓNSKÁLDIN
Ásbjörg Jónsdóttir lauk meistaraprófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur breiðan tónlistarlegan bakgrunn, allt frá djasssöng til kórastarfs en hefur þroskað tónsmíðagáfu sína jafnt og þétt í eftirminnilegum kammerverkum sem sameina léttleika og ljóðrænu.
Gunnar Karel Másson lauk meistaraprófi í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn en segja má að heimspeki og leikhús eigi ekki minni skerf af honum en tónlistin. Hann hefur tekið þátt í uppsetningu fjölda leiksýninga og samið eða sniðið hljóðheim þeirra. Tónverk hans eru gjarnan eins og leiksvið þar sem hugmyndir takast á. Gunnar Karel tók þátt í Yrkju I með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
María Huld Markan Sigfúsdóttir gjörþekkir fiðluna sem flytjandi og hefur í nokkrum tónverkum sínum undanfarið kannað hljóðheim hennar á frumlegan hátt. Hún nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og hefur mikla reynslu sem tónskáld og flytjandi. Auk kammerverka hennar, sem hafa verið tekin upp og flutt víða um heim hefur hún samið fyrir hljómsveit og tónlist við nokkrar kvikmyndir.
Sigurður Árni Jónsson lauk meistaraprófi bæði í tónsmíðum og hljómsveitarstjórn í Svíþjóð. Hann stjórnar Ensemble Dasein í Gautaborg og hefur rannsakað ýmis blæbrigði kammerskriftar á sannfærandi hátt, en eftir hann liggja jafnframt tvö hljómsveitarverk. Sigurður Árni tók þátt í Yrkju V með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Tónverk 20 / 21 og Tíbrá tónleikaröð er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar og unnið í samvinnu við Tónverkamiðstöð Íslands.
Þess má geta að Salurinn býður í fyrsta sinn upp á tvær leiðir til að upplifa tónleikana. Annars vegar með því að kaupa miða í Salinn og njóta lifandi frumflutningsins í einum besta tónleikasal landsins og hins vegar með því að kaupa aðgang að beinu streymi og njóta heima í stofu.
Comments