top of page
Search

STATUS – nýr norrænn samstarfshópur kortleggur umhverfi og stöðu samtímatónlistar á Norðurlöndum

STATUS er nýr samstarfshópur norrænna tónlistarmiðstöðva í samtímatónlist sem mun vinna að styrkingu norræns tengslanets í þeim geira tónlistar. Starf hópsins hefst með kortlagningu samtímatónlistar á Norðurlöndum en verkefnið hlaut nýverið styrk úr Nordic Culture Fund.


Danska miðstöðin SNYK hafði frumkvæði að myndun hópsins en aðrir meðlimir hópsins eru Tónverkamiðstöð, Unga tankar om Musik (UTOM) í Svíþjóð, Music Finland og Music Norway.


Hópurinn tók til starfa haustið 2021 og miðar starf hans að því að styrkja samstarf og upplýsingamiðlun í samtímatónlist á Norðurlöndum. Fyrsta samstarfsverkefnið er að rannsaka stöðu samtímatónlistar í hverju Norðurlandanna þar sem innviðir þess geira tónlistar verða greindir og bornir saman, listræn og samfélagsleg staða samtímatónlistar könnuð með það fyrir augum að varpa ljósi á ný tækifæri til samstarfs og eflingu geirans.


Það er von hópsins að rannsóknin leiði til nýrra samstarfstækifæra fyrir þá sem starfa í samtímatónlist á Norðurlöndunum, bæði heima fyrir en ekki síst landa á milli.


Rannsóknin hlaut nýverið styrk frá Nordic Culture Fund en hún verður framkvæmd í samstarfi við og með aðferðafræði dönsku stefnumótunarstofunnar Bespoke Copenhagen.







Comentários


bottom of page