top of page
Search

Sjö tónverk eftir sex tónskáld tilnefnd

Árið 2018 var gott og gjöfult tónlistarár. Sjö tónverk eftir sex tónskáld eru tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum Tónverk ársins. Hér fylgir yfirlit yfir tilnefningarnar ásamt umsögn dómnefndar.

Farvegur – Þuríður Jónsdóttir

Farvegur var frumfluttur á tónlistarhátíð Rásar 1 í nóvember 2018 en verkið var pantað af Rás 1. Í verkinu fléttast saman fiðlu- og náttúruhljóð; fiðluleikurinn var í höndum Unu Sveinbjarnardóttur sem gerði verkinu einstök skil. Djúp og ágeng náttúruhljóð voru frábærlega útfærð – flutningur verksins og upplifun af því afar eftirminnileg.

From My Green Karlstad – Finnur Karlsson

Sérlega eftirtektarvert og innblásið tónverk. Finnur Karlsson er án nokkurs vafa eitt af eftirtekarverðari tónskáldum yngri kynslóðarinnar.

Loom – María Huld Markan Sigfúsdóttir

Loom býr yfir dáleiðandi og tímalausri fegurð. Hljóðheimurinn forn og nýr í bland,

undiraldan þung og heillandi. Loom hljómaði í fyrsta sinn á Reykjavík Festival í Los Angeles í apríl árið 2017 en hérlendis hljómaði það í fyrsta sinn á á Myrkum músíkdögum í upphafi ársins 2018. Verkið er frábærlega túlkað af Nordic Affect á nýjustu plötu hópsins.

METACOSMOS – Anna Þorvaldsdóttir

Margslungið verk og mikilvæg varða á ferli eins af okkar helstu tónskálda. Ævintýralega magnað og dáleiðandi ferðalag inn í andstæður ógnar, átaka og fegurðar.

Silfurfljót – Áskell Másson

Í Silfurfjlóti, konsert fyrir klarínettu og hljómsveit, fer fram ljóðrænt samtal milli einleikara og hljómsveitar sem einkennist af birtu og tærleika. Framvinda verksins færir hlustendum seiðandi laglínur jafnt sem stórbrotnar myndir í tónmáli hljómsveitarinnar.

Spectra – Anna Þorvaldsdóttir

Flæðandi tónmál – hljóðheimur og línur sem ásækja mann löngu eftir að hlustun er lokið. Seiðandi en jafnframt ögrandi tónvefur.

Split thee, Soul, to Splendid Bits

(attn.: no eternal life/light this time around) – Bára Gísladóttir

Sterk rödd höfundar skín í gegnum verk Báru, hvort heldur sem um er að ræða umfangsmikil verk eða smærri. Í Split thee, Soul, to Splendid Bits nýtir Bára sér hljóðheim barokks á nýstárlegan hátt í afar heillandi tónverki.

13 views

Comments


bottom of page