top of page
Search

Nýr formaður Tónskáldafélags Íslands


IMG_5595

Þórunn Gréta Sigurðardóttir hefur tekið við af Kjartani Ólafssyni sem formaður Tónskáldafélags Íslands. Félagið var stofnað árið 1945 að frumkvæði Jóns Leifs m.a. til að gæta hagsmuna tónskálda, vinna að vexti og viðgangi tónmenntar í landinu og útbreiðslu íslenskrar tónlistar, innan lands sem utan.

Þórunn Gréta stundaði tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.A. gráðu árið 2011 og hlaut M.Mus. gráðu frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg árið 2014. Hún hefur sótt fjölda masterklassa og námskeiða í píanóleik, tónsmíðum og spuna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi auk Íslands. Á undanförnum árum hefur hún unnið mikið á mörkum tónlistar og leiklistar og eru mörg verk hennar eins konar tónleikhúsverk eða tóngjörningar. Þórunn Gréta er þátttakandi í Yrkju, eins árs vinnustofu fyrir ung tónskáld í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Tónverkamiðstöð.

Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar var stofnuð af Tónskáldafélaginu árið 1980 og er formaður félagsins jafnframt listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Hátíðin miðar að því að kynna ný íslensk tónverk í bland við helstu strauma erlendis frá. Hátíðin í ár mun fara fram dagana 28. til 30. janúar í Hörpu og meðal þeirra sem koma fram eru fransk-norski tónlistarhópurinn Dans les Arbres sem hlaut tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2015, Nordic Affect, slagverksleikarinn Jennifer Torrance og Caput.

0 views

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page