top of page
Search

Nýjar íslenskar óperur á tímum heimsfaraldurs

Það er óhætt að segja að gróska sé í óperutónsmíðum íslenskra tónskálda. Ný kammerópera verður frumflutt nú í lok febrúar, önnur verður sýnd í mars eftir sýningahlé vegna heimsfaraldurs og nokkrar kammeróperur hafa litið dagsins ljós undanfarna mánuði.



febrúar 2021:

Traversing the Void

Kammeróperan Traversing the Void (Í gegnum tómið) verður frumflutt í Norðurljósum í Hörpu, sunnudaginn 28. febrúar. Óperan er samin af Hildigunni Rúnarsdóttur við texta eftir áströlsku söngkonuna og listamanninn Josephine Truman. Flytjendur eru Hallveig Rúnarsdóttir sópran og kammerhópurinn Camerarctica.


Hildigunnur Rúnarsdóttir segir svo frá tilurð verksins: „Við Josephine Truman kynntumst þegar ég var á tónlistarhátíð í Ástralíu að fylgja verki eftir mig. Við héldum sambandi og nokkrum árum síðar kviknaði hugmyndin um að vinna saman að tónverki. Verkið var unnið samhliða, hún henti í mig textum og ég sendi henni hugmyndir að tónefni. Textinn er ljóð um mannkynið sem er að eyðileggja heiminn eins og við þekkjum hann. Tónlistin endurspeglar textann, undirstrikar hann stundum, en beinist stundum í gagnstæða átt.” Smíði verksins var styrkt af Tónskáldasjóði RÚV og STEFs og Australia Council for the Arts.



Hildigunnur Rúnarsdóttir nam tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík, í Hamborg og Kaupmannahöfn. Eftir hana liggur fjöldi kórverka og sönglaga og meðal stærri verka hennar má nefna tvær messur, Guðbrandsmessu og Vídalínsmessu, og barnaóperuna Gilitrutt. Hildigunnur starfar við tónsmíðar, kennslu og söng í Reykjavík.


Josephine Truman er söngkona, tónsmiður, skáld og myndlistarmaður sem starfar í Sydney í Ástralíu. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar, stundað nám, tónsköpun og -flutning – einkum jazz og nýtónlist – í London, Amsterdam, Stuttgart og víðar auk heimalandsins, og unnið með mörgu frægðarfólki, m.a. John Cage við flutning á Song Books.

. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . .

október 2020/mars 2021:

KOK

Kammeróperan Kok var frumsýnd í október 2020 en er nú komin aftur í sýningar í Borgarleikhúsinu.


Ljóða- og myndlistarbókin Kok eftir Kristínu Eiríksdóttur vakti verðskuldaða athygli þegar hún kom út árið 2014 og var m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ljóð Kristínar fjalla á óvenjulega beinskeyttan hátt um samband og sambandsleysi, ást og andúð, þrá og skeytingarleysi þar sem mannlegt eðli er afhjúpað í öllum sínum dýrlega breyskleika.

Í bókinni mynda ljóðin og myndlistin eina heild og í sviðsverkinu er báðum þessum þáttum gert jafnhátt undir höfði og þeir fléttaðir saman við tónlistina og leikhústöfrana.


Verkið er sett upp í tengslum við tónlistarhátíðina Óperudaga, í samvinnu við leikhópinn Svartan jakka, en hann skipa auk Kristínar þær Þórunn Gréta Sigurðardóttir, tónskáld, og leikstjórinn Kolfinna Nikulásdóttir. Áður hafa þær unnið saman að útvarpsverkinu Fákafen sem hlaut Grímuverðlaunin 2018. Flytjendur eru Hanna Dóra Sturludóttir mezzo-sópran, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Katie Buckley hörpuleikari.


Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.



. . . . . . . . . .

janúar 2021:

Fuglabjargið

Nýlega var tónleikhúsverkið Fuglabjargið frumsýnd í Borgarleikhúsinu í samstarfi við sviðslistahópinn Hin fræga önd. Fuglabjargið er tónleikhúsverk fyrir börn þar sem við fylgjumst með einu ári í eyjunni Skrúði. Tónlist verksins er eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur en textinn er eftir Birni Jón Sigurðsson.


Fuglabjargið er enn í sýningu í Borgarleikhúsinu en verkefnið var styrkt af Sviðslistaráði, Starfslaunasjóði listamanna, Átaksverkefni atvinnuleikhópa, Barnamenningarsjóði, Tónlistarsjóði og Nordic Culture Point.



. . . . . . . . . . . . . .

september 2020:

Ekkert er sorglegra en manneskjan

Kammeróperan Ekkert er sorglegra en manneskjan eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson og Adolf Smára Unnarsson var frumsýnd í september síðastliðnum. Í kynningartexta er verkinu lýst sem harmrænu en hryllilega fyndnu ferðalagi.

Ekkert er sorglegra en manneskjan er fyrsta ópera Friðriks í fullri lengd en í áður gaf hann út verkið Skipholt, sem var útskriftarverk hans úr Listaháskólanum. Á síðustu árum hefur Friðrik átt í samstarfi við hljómsveitina Hatara og hefur komið fram með henni á tónleikum.


. . . . . . . . .

mars 2020:

Music and the Brain

Raf-óperan Music and the Brain (Tónlist og Heilinn) eftir Helga Rafn Ingvarsson er innblásin af skrifum taugafræðingsins Oliver Sacks og fjallar um þau taugafræðilegu og tilfinningalegu áhrif sem tónlist getur haft á okkur.


Óperan var fyrst flutt árið 2017 en endurgerð hennar frá árunum 2019/20 var frumflutt í Salnum í Kópavogi í mars 2020. Flytjendur voru Gunnar Guðbjörnsson & Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir. Verkefnið var styrkt af List fyrir alla og Kópavogsbæ.


nari upplýsingar um óperuna


Comments


bottom of page