Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar verða haldnir í Hörpu, dagana 28.-30. janúar næstkomandi. Hátíðin býður upp á metnaðarfulla dagskrá sem samanstendur af fjölda spennandi tónleika með samtímatónlist á dimmasta tíma ársins. Markmið hátíðarinnar er að veita birtu í huga áhorfenda og þátttakenda í svartasta skammdeginu. Tónverkamiðstöð er einn af styrktaraðilum hátíðarinnar og við hvetjum alla til að sækja viðburðina í Hörpu.
Á Myrkum músíkdögum í ár verður lögð áhersla á áhugaverða og skemmtilega tónleika þar sem meginþorri verkanna eru frumflutt á hátíðinni. Boðið verður upp á einstaklega fjölbreytta dagskrá sem inniheldur einleikstónleika, kammertónleika, slagverks- og raftónleika. Má þar nefna einleikstónleika píanóleikarans Eddu Erlendsdóttur, orgeltónleika Guðnýjar Einarsdóttur til heiðurs Jóni Nordal, tónleika norsk/franska kvartettsins Dans les arbres sem flytur þétta spunatónlist, en kvartettinn var tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2016. Þá eru ótaldir árlegir tónleikar Caput, Kammersveitar Reykjavíkur, Nordic Affect og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Dagskrá Myrkra músíkdaga má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar. Einnig er yfirlit yfir viðburði, aðgangur að miðasölu o.fl. á Facebook-síðu hátíðarinnar.
Hátíðin er ein elsta tónlistarhátíð landsins, stofnuð árið 1980 af Tónskáldafélagi Íslands sem vettvangur fyrir íslensk tónskáld til að fá verk sín flutt. Í dag er hátíðin vettvangur til að flytja og kynnast samtímatónlist með áherslu á nýja, íslenska tónlist og flytjendur í bland við erlend verk og erlenda flytjendur. Formaður Tónskáldafélags Íslands, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.
Comments