top of page
Search

Jón Nordal níræður

SC 20031210 001

Jón Nordal

Jón Nordal, eitt helsta samtímatónskáld okkar Íslendinga, varð níræður á sunnudaginn var. Jón hefur sett mark sitt á tónlistarlíf Íslendinga sem tónskáld, píanóleikari, kennari og skólastjóri Tónlistarskóla Reykjavíkur til fjölda ára. Hann var einn af stofnendum Musica Nova, félags sem opnaði leið fyrir flutning samtímatónlistar hér á landi, bæði íslenskrar og erlendrar.

Jón lærði píanóleik og tónsmíðar við Tónlistaskólann í Reykjavík hjá Árna Kristjánssyni, Jóni Þórarinssyni og Victori Urbancic. Hann stundaði framhaldsnám í Zürich hjá Walter Frey og Willy Burhard og hélt síðar til náms í Kaupmannahöfn, París, Róm og Darmstadt. Þannig var hann orðinn vel skólaður þegar hann fékk pöntun um að semja verk í tilefni af heimsókn Friðriks níunda Danakonungs til Íslands árið 1956. Það verk var Sinfonietta Seriosa eða Bjarkamál sem er gott dæmi frá árdögum sinfónískra tónsmíða á Íslandi.


Jón Nordal hefur verið afkastamikið tónskáld og samið hljómsveitarverk jafnt sem kór- og kammerverk. Tónlist hans ber merki nokkurra nútíma tónsmíðaskóla en er sett fram með afar persónulegu tónmáli. Af stærri verkum má nefna Bjarkamál (Sinfonietta Seriosa) fyrir hljómsveit (1956), Konsert fyrir píanó og hljómsveit (1956), Brotaspil, fyrir hljómsveit (1962), Adagio fyrir flautu, hörpu, píanó og strengjasveit (1966), Leiðslu, fyrir hljómsveit (1973), Langnætti, fyrir hljómsveit (1975), Tvisöngur, fyrir fiðlu, víólu og hljómsveit (1979), Cello Concerto (1983) og Choralis, fyrir hljómsveit, samið eftir pöntun frá Mstislav Rostropovich og frumflutt undir hans stjórn í Washingtonborg árið 1982.

Jón Nordal hefur hlotið margvísleg verðlaun á sínum langa tónskáldaferli. Hann nýtur heiðurslauna listamanna sem veitt eru af Alþingi og er handhafi hinnar íslensku fálkaorðu. Hann hlaut Dannebrog-orðuna árið 1956 og varð meðlimur í Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni árið 1968. Árið 1992 varð hann fyrsti handhafi Tónvakans, tónlistarverðlauna Ríkisútvarpsins sem veitt voru fyrir áralangt starf í þágu íslensks tónlistarlífs. Jón var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000 fyrir strengjakvartettinn Frá draumi til draums sem Mál og menning gaf út á geisladiski. Aðrar útgáfur eru m.a. Portrett sem inniheldur hljómsveitarverk undir stjórn Paul Zukovsky og Sól ég sá sem inniheldur trúarleg kórverk eftir Jón Nordal. Síðasttöldu diskana gaf Íslensk tónverkamiðstöð út.

Nótur að verkum Jóns eru fáanlegar í vefverslun Tónverkamiðstöðvar á eftirfarandi slóð, http://shop.mic.is/Search/SearchResults/.

139 views

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page