top of page
Search

IAMIC – International Association of Music Information Centres

Tónverkamiðstöð er félagi í IAMIC - International Association of Music Information Centres og var aðalfundur samtakanna haldinn í morgun. Meðlimaflóra IAMIC teygir sig allt frá Kanada til Nýja Sjálands en félagatalið telur nú þrjátíu og fjórar miðstöðvar, félög og samtök víðs vegar um heim sem öll hafa það að markmiði að vinna að tengslamyndun, flutningi og framgangi samtímatónlistar. IAMIC er aðili að European Music Council og International Music Council og er í nánum tengslum við fjölmörg félagasamtök þar sem starfsemin hverfist um samtímatónlist. Ný stjórn IAMIC var kjörin á aðalfundinum og skipa hana fulltrúar meðlima frá Slóveníu, Írlandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Nýja Sjálandi, Wales, Þýskalandi og Íslandi. Nýr forseti IAMIC er Diana Marsh, framkvæmdastjóri SOUNZ á Nýja Sjálandi. Framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar, Valgerður G. Halldórsdóttir hefur setið í stjórn samtakanna síðan 2019. Kórónuveirufaraldurinn hefur sett mark sitt á starfsemi IAMIC rétt eins og alla tónlistarstarfsemi. Árleg ráðstefna samtakanna með tilheyrandi tónlistarflutningi og tengslamyndun hefur ekki verið haldin síðan vorið 2019. Með bjartsýni að leiðarljósi standa þó vonir til að meðlimir geti hist í Bonn í Þýskalandi vorið 2022 þegar næsta ráðstefna er fyrirhuguð. Ráðstefnan var upphaflega skipulögð í tengslum við 250 ára fæðingarafmæli Beethoven árið 2020 en verður nú haldin í maí á næsta ári, strax á eftir kaupstefnunni Classical Next sem fram fer í Hannover 17. til 20. maí.


Ný stjórn IAMIC (talið f.v. frá efstu röð): Peter Baroš, Jonathan Grimes, Agnieszka Ciešlak, Frank J. Oteri, Diana Marsh, Deborah Keyser, Stephan Schulmeistrat og Valgerður G. Halldórsdóttir.

Comments


bottom of page