top of page
Search

Hallfríður Ólafsdóttir (1964-2020)

Updated: Sep 14, 2020

Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og hljómsveitarstjóri lést hinn 4. september síðastliðinn. Hún var leiðandi flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tvo áratugi og kom reglulega fram sem einleikari með hljómsveitinni. Hallfríður var jafnframt höfundur og listrænn stjórnandi fræðsluverkefnisins um Maxímús Músíkus.

Hallfríður stundaði tónlistarnám á Íslandi, í London og í París. Samhliða starfi sínu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands kenndi hún flautuleik og síðustu ár sinnti hún hljómsveitarstjórn í auknum mæli en hún stjórnaði meðal annars tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna, Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Hallfríður hafði brennandi áhuga á fræðslu ungra tónlistarunnenda og hafa þúsundir íslenskra barna kynnst hljóðheimi klassískrar tónlistar með músinni tónelsku á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) ásamt því að njóta bókanna um Maximús Músíkus sem hún vann með Þórarni Má Baldurssyni víóluleikara í SÍ en hann myndskreytti bækurnar. Bækurnar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og vel yfir hundrað tónleikar byggðir á sögunum hafa verið haldnir af sinfóníuhljómsveitum víða um heim, m.a. í New York, Washington, LA, Berlín, Stokkhólmi, Kuala Lumpur og Melbourne. Hljómsveitarstjórinn Vladimir Ashkenazy er verndari verkefnisins um Maxímús Músíkus.

Hallfríður vann ötullega að framgangi íslenskrar tónlistar, var mjög áfram um framgang íslenskra tónskálda og tónlistarkvenna en hún tók virkan þátt í starfi KÍTÓN. Í meðfylgjandi myndbandi stjórnar Hallfríður flutningi KÍTÓN-hljómsveitarinnar á Eldi eftir Jórunni Viðar á tónleikunum Tónafljóð sem haldnir voru í Hörpu í mars 2014.

Hallfríður hlaut heiðursnafnbótina Associate of the Royal Academy of Music í London árið 2002 og árið 2003 var hún valin bæjarlistamaður Garðabæjar. Hallfríður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2014 og í apríl 2019 var henni veitt heiðursviðurkenning Útflutningsverðlauna forseta Íslands fyrir einstakt framlag til að auka hróður Íslands á erlendri grund. Þau Þórarinn hlutu bæði Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar ársins 2008 fyrir fyrstu bókina um Maxa, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina og hefur verkefnið hlotið fjölda tilnefninga til verðlauna hérlendis sem erlendis.

Starfsfólk og stjórn Tónverkamiðstöðvar votta aðstandendum Hallfríðar innilega samúð og þakka fyrir gefandi samskipti og samstarf í gegnum árin.


107 views

Comentarios


bottom of page