top of page
Search

Frá stjórn Tónverkamiðstöðvar vegna sérstaks framlags stjórnvalda vegna heimsfaraldurs

Í gær voru kynntar sérstakar aðgerðir stjórnvalda til viðspyrnu í tónlistar- og sviðslistageirunum. Í þeim felst að ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja 450 milljónum króna sérstaklega í þágu tónlistar- og sviðslistageiranna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Sérstaklega er veitt fé til tónlistar með framlögum til tónhöfunda, tónlistarsjóðanna þriggja og tónlistarmiðstöðvanna Útón og Tónverkamiðstöðvar.

Tónverkamiðstöð, stofnuð árið 1968, er miðstöð samtímatónlistar á Íslandi og er rekin sem óhagnaðardrifið menningarfélag. Félagar eru tónskáld sem eiga verk í tónverkasafni miðstöðvarinnar. Miðstöðin starfar í þágu tónskáldanna og að uppbyggingu og kynningu nótnasafns miðstöðvarinnar – þessa mikilvæga, sprelllifandi menningararfs sem vex með hverju tónverki sem skráð er hjá miðstöðinni. Nótnasafnið er stærsta einstaka nótnasafn íslenskra tónverka á heimsvísu og telur yfir tíu þúsund titla eftir vel á fjórða hundrað tónskáld.

Tónverkamiðstöð hefur ekki farið varhluta af þeim þrengingum sem tónlistar- og sviðslistageirinn hefur mátt þola í heimsfaraldrinum. Sjálfsaflatekjur miðstöðvarinnar eru að langstærstum hluta tekjur af nótnasölu og leigu hljómsveitarverka. Þær tekjur hafa undanfarin ár staðið straum af kynningarstarfi miðstöðvarinnar ásamt því að standa undir hluta rekstrarkostnaðar. Í takt við aukna vitund um íslensk tónskáld og verk þeirra, hafði nótnasala aukist jafnt og þétt undanfarin misseri. Íslensk tónverk áttu æ greiðari aðgang að efnisskrám tónleika, ekki síst erlendis – allt fram að heimsfaraldri. Segja má að þá hafi tekjur af nótnasölu nánast hrunið í réttu hlutfalli við hrun á viðburðahaldi bæði hér á landi og erlendis. Til að koma til móts við þrengingarnar hefur starfsfólk miðstöðvarinnar unnið í skertu starfshlutfalli síðan haustið 2020 og með því sýnt mikinn og þakkarverðan sveigjanleika og fórnfýsi.


Það má segja að starf miðstöðvarinnar einkennist af hugsjón sem sést ekki síst á því að tónskáldin afhenda miðstöðinni verðmæti með því að skrá verk sín í nótnasafnið endurgjaldslaust í þeirri von að verkin verði flutt. Flytjendur kaupa svo eða leigja nótur og tónskáldin fá hluta söluandvirðisins. Afgangurinn rennur til starfsemi miðstöðvarinnar og áframhaldandi kynningarstarfs.

>> Sérstaða samtímatónlistar er m.a. sú að tónskáldin eru sjaldnast flytjendur eigin tónverka. Þau þarfnast flytjenda til að heyrast. <<

Sérstaða samtímatónlistar er m.a. sú að tónskáldin eru sjaldnast flytjendur eigin tónverka. Þau þarfnast flytjenda til að verkin heyrist. Kynningarstarf Tónverkamiðstöðvar miðar þess vegna að því að fá íslensk tónverk flutt. Til þess þarf að viðhalda vitund og áhuga flytjenda, listrænna stjórnenda, hljómsveitarstjóra og annarra á íslenskum tónverkum og gera nótur að þeim aðgengilegar. Með þessu byggist upp verðmætt tengslanet en kynningarstarf Tónverkamiðstöðvar vekur samhliða athygli á íslenskum samtímatónlistargeira.

Einn mikilvægasti liðurinn í því að gera íslensk tónverk aðgengileg er að halda úti leitarhæfum gagnagrunni og vefverslun. Sú vefverslun sem nú er í loftinu inniheldur stærstan hluta verkasafns miðstöðvarinnar en kerfið á bak við hana er löngu orðið úrelt, eins og þeir sem umgangast vefverslunina átta sig fljótlega á. Þess vegna er brýnt að smíða nýjan gagnagrunn og setja upp nýja vefverslun.

Að ofansögðu má sjá að styrkur stjórnvalda skiptir starfsemi Tónverkamiðstöðvar afar miklu máli og þiggjum við hann með bestu þökkum.

Stjórn Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Nánari upplýsingar um sérstakar aðgerðir stjórnvalda eru á vef Stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar um starfsemi Tónverkamiðstöðvar eru á heimasíðu miðstöðvarinnar. Stærstur hluti verkasafnsins er aðgengilegur í vefverslun Tónverkamiðstöðvar.


59 views
bottom of page