Afhending Grammy-verðlaunanna fór fram síðastliðna nótt við hátíðlega athöfn í Las Vegas.
Í gegnum tíðina hefur góður hópur Íslendinga hlotið tilnefningar til verðlaunanna og fimm þeirra hlotnast verðlaunin sjálf. Þeir eru: Steinar Höskuldsson (S. Husky Höskulds) sem hlaut þau fyrir upptöku á fyrstu plötu Noruh Jones, Sigurbjörn Bernharðsson sem hlaut þau fyrir besta flutning á kammertónlist, Kristinn Sigmundsson hlaut verðlaunin árið 2016 en upptaka á The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano hlaut verðlaunin og söng Kristinn einsöngshlutverk. Hildur Guðnadóttir hefur tvívegis hlotið verðlaunin, fyrir tónlist sína í Chernobyl og Joker. Síðastliðna nótt hlaut Dísella Lárusdóttir svo Grammy-verðlaun fyrir söng sinn í upptöku á uppfærslu Metropolitan óperunnar á Akhnaten eftir Philip Glass. Dísella tók á móti verðlaununum ásamt félögum sínum, f.h. aðstandenda uppfærslunnar en tilnefningin náði til: Karen Kamensek, stjórnanda; söngvaranna J’Nai Bridges, Anthony Roth Costanzo, Zachary James og Dísellu Lárusdóttur; David Frost, framleiðanda og kórs og hljómsveitar Metropolitan óperunnar.
Comments