top of page
Search

Auglýst eftir umsóknum um þátttöku í YRKJU II með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Tónverkamiðstöð og Sinfóníuhljómsveit Íslands kalla nú eftir umsóknum frá tónskáldum um þátttöku í öðrum hluta YRKJU. Umsóknarfrestur er til og með 31. mars 2016.

YRKJA er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar og veitir tónskáldum sem stödd eru á fyrri hluta starfsferils síns, tækifæri til að vinna með úrvali íslenskra listastofnana. 


Markmið Yrkju er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið hornsteinn í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsferilsins og brúar bilið milli háskólanáms og starfsferils með því að undirbúa tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Í YRKJU fær tónskáldið tækifæri til að þróa hæfileika sína og listrænan metnað, öðlast starfsreynslu og mynda tengsl í tónlistargeiranum.

Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. Við viljum hlúa að starfsferli tónskáldanna og mun því verkefnið fela í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldins og mun miðstöðin skipuleggja fund þar sem tónskáldin í verkefninu hittast og deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.

Tónverkamiðstöð og Sinfóníuhljómsveit Íslands bjóða nú einu tónskáldi tækifæri til að starfa með hljómsveitinni.

Á tímabilinu, sem mun spanna um níu mánuði, mun tónskáldið þróa færni sína í að skrifa fyrir sinfóníuhljómsveit og vinna að frumflutningi nýs verks.

Tónskáldið mun vinna undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar, tónskálds og hljómsveitarstjóra.

Tónskáldið mun fá innsýn inn í innra starf hljómsveitarinnar og vinna náið með hljóðfæraleikurunum, Daníel Bjarnasyni, skrifstofu og yfirstjórn SÍ.

YRKJA_SI2

Daníel Bjarnason og Halldór Smárason. Frá vinnustofu í YRKJU I með SÍ.


Umsóknarfrestur er til og með 31. mars 2016.

ATH! Verkefnið er opið öllum óháð aldri sem hafa að lágmarki lokið grunnnámi í tónsmíðum eða tengdu námi og hafa útskrifast á síðustu 10 árum.

Viðkomandi má ekki vera í námi samhliða verkefninu.

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page