top of page
Search

Apríl 2017: Reykjavík Festival í Los Angeles

rey-head

Vorið 2017, nánar tiltekið 1. til 17. apríl, stendur Los Angeles Philharmonic fyrir menningarhátíð sem ber yfirskriftina Reykjavík Festival. Listrænir stjórnendur hátíðarinnar  eru Esa-Pekka Salonen og Daníel Bjarnason. Eins og lýst er á vef LA Phil spannar dagskrá hátíðarinnar breitt svið samtímatónlistar sem flutt verður af einvalaliði listamanna, en býður einnig upp á sjónlistir, fyrirlestra og kvikmyndir.

Þegar hefur verið sagt frá tónleikum undir yfirskriftinni Green Umbrella (11. apríl) en þar mun Daníel Bjarnason stjórna flutningi Schola Cantorum, Sæunnar Þorsteinsdóttur o.fl. á verkum nokkurra íslenskra samtímatónskálda, m.a. Þuríðar Jónsdóttur, Áskels Mássonar, Atla Ingólfssonar og Páls Ragnars Pálssonar. Hljómsveitin Sigur Rós mun koma fram á þrennum tónleikum með LA Phil (13./14./15. apríl) ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni, kammerkórnum Schola Cantorum og fleiri listamönnum. Ásamt tónlist Sigur Rósar verða á dagskrá verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur, Hlyn Aðils, Hauk Tómasson, Maríu Huld Markan, Daníel Bjarnason og Jón Leifs . Kammerhópurinn Nordic Affect kemur fram á hátíðinni og tónlistarmúsin Maxímús Músíkus mun ferðast til Los Angeles og kynna íslensk tónverk fyrir yngri (og eldri!) áhorfendum á tónleikum 1. og 8. apríl. Þá munu tónleikar Jóhanns Jóhannssonar og Bedroom Community (17. apríl) án efa vekja athygli. Fleiri viðburðir verða opinberaðir á næstunni – fylgist með frá byrjun.

2 views
bottom of page