Anna Guðný Guðmundsdóttir er og hefur verið mikilvægur og sterkur hlekkur í íslensku tónlistarlífi í fjóra áratugi og hlaut í gær heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Í þakkarræðu sinni sagði hún meðal annars að „sá sem lifir í tónlist þurfi aldrei að vera einmana, verkefnalaus og vinalaus“ og ber farsæll ferill hennar því vitni.
Anna Guðný stundaði píanónám í Barnamúsíkskólanum hjá Stefáni Edelstein og lauk síðar burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, þar sem Hermína S. Kristjánsson, Jón Nordal og Margrét Eiríksdóttir voru meðal hennar leiðbeinenda. Hún lauk Post Graduate Diploma frá Guildhall School of Music and Drama í London. Anna Guðný sótti enn fremur námskeið og einkatíma hjá Erik Werba, Rudolf Jansen, György Sebök, John Lill og fleiri kennurum.
Anna Guðný lagði á sínum tíma sérstaka áherslu á kammermúsík og meðleik með söng og hefur átt farsælt samstarf við marga af okkar þekktustu tónlistarmönnum. Um langt árabil hefur Anna Guðný sinnt kennslustörfum, var píanókennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og einnig við Menntaskólann í tónlist. Hún hefur verið fastráðinn píanóleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil og einnig komið fram með hljómsveitinni sem einleikari. Anna Guðný hefur komið fram á fjölda kammertónleika með ýmsum söngvurum og hljóðfæraleikurum; á vegum Kammermúsíkklúbbsins, í Tíbrá tónleikaröðinni og tónlistarhátíðum um allt land. Á ferli sínum hefur hún einnig leikið á tónleikum víða í Evrópu og í Kína, Japan, á Norðurlöndunum og víðar. Hún hefur enn fremur spilað inn á um 30 hljómplötur með mörgu fremsta listafólki þjóðarinnar auk þess að gefa út rómaðar einleiksplötur. Anna Guðný hefur þrisvar verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut verðlaunin árið 2008, sem flytjandi ársins, fyrir heildarflutning á tónverkinu Tuttugu tillit til Jesúbarnsins eftir Oliver Messiaen. Hún hlaut starfslaun menntamálaráðuneytisins 1995 og 2000, hlaut orðu Hvítu rósarinnar frá finnska ríkinu 1997, hún hefur sinnt tónlistarráðgjöf á safninu á Gljúfrasteini um árabil og var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2002. Í meðfylgjandi myndbandi sem gert var fyrir Sönghátíð í Hafnarborg fyrir ekki svo löngu, ræðir Anna Guðný um meðleik við Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur. Hér fyrir neðan er svo upptaka frá heiðurstónleikum með verkum Jóns Ásgeirssonar í tilefni af níræðisafmæli tónskáldsins. Þar leikur Anna Guðný með Herdísi Önnu Jónasdóttur sem einmitt var valin Söngvari ársins 2021 á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Þessu tengt:
Frétt RÚV um heiðursverðlaunahafann ásamt myndbandskynningu Íslensku tónlistarverðlaunanna.
コメント