Frestur til að sækja um þátttöku í Ung-Yrkju með Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ), starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir ung tónskáld, rann út á miðnætti 15. mars síðastliðinn. Sjö umsóknir bárust og voru allar lagðar fyrir valnefnd. Í valnefnd sátu Anna Þorvaldsdóttir staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands og mentor verkefnisins, Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld og deildarforseti Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og Gunnar Andreas Kristinsson tónskáld og stjórnarformaður Tónverkamiðstöðvar.
Niðurstaða valnefndar var að bjóða þeim Hjalta Nordal, Ingibjörgu Elsu Turchi og Katrínu Helgu Ólafsdóttur að taka þátt í verkefninu.
Hjalti Nordal (1999) byrjaði 8 ára að skrifa út tónlist fyrir samnemendur sína í Suzuki-tónlistarskólanum í Reykjavík. Árið 2012 byrjaði hann í einkatímum í tónsmíðum hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni. 2016 lærði hann hjá Guðmundi Hafsteinssyni og útskrifaðist úr Menntaskóla í Tónlist árið 2018 með stúdentspróf í tónsmíðum. Hjalti stundar nú BA-nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands og einkakennarar hans eru Atli Ingólfsson og Einar Torfi Einarsson. Hjalti hefur fengið verk sín flutt af samnemendum og atvinnumönnum bæði hér heima og erlendis, má þar nefna Berlínarfílharmóníunnar, Skark, Dómkórinn í Reykjavík, Duo Harpverk og
Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hjalti spilar á fiðlu, píanó og saxófón og hefur sótt fjölmörg námskeið og spilað með ýmsum
kammerhópum og ungmennahljómsveitum.
Ingibjörg Elsa Turchi (1988), bassaleikari og tónskáld hóf tónlistarnám í forskóla Tónskóla Sigursveins á blokkflautu og lærði svo á hin ýmsu hljóðfæri fram á unglingsaldur, s.s. flautu, píanó, gítar og harmonikku og svo rafbassa. Á ferli sínum hefur Ingibjörg spilað á bassa með
mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar eins og Bubba Morthens, Stuðmönnum, Emilíönu Torrini og Teiti Magnússyni, svo fátt eitt sé nefnt. Hún hefur spilað inn á fjölmargar plötur og í hljómsveitum hinna ýmsu listamanna og árið 2017 hóf hún svo sinn sólóferil með útgáfu plötunnar Wood/work. Hún heldur úti eigin hljómsveit undir formerkjum spuna- og djasstónlistar.
Ingibjörg lagði stund á bassanám í Tónlistarskóla FÍH og hljóðfæratónsmíðar í Listaháskóla
Íslands undir leiðsögn Þuríðar Jónsdóttur og Páls Ragnars Pálssonar og er að vinna
að lokaverki og útskrifast með BA-gráðu í tónsmíðum í vor. Nam hún á rafbassa
undir leiðsögn Skúla Sverrissona og Sigurðar Flosasonar. Einnig er hún með
BA-gráður í latínu og forn-grísku frá HÍ. Að auki er Ingibjörg ein stofnmeðlima
Stelpur rokka! félagasamtaka sem hófu störf árið 2012 við góðan orðstír.
Katrín Helga Ólafsdóttir, K.óla (1996) er tónskáld og listakona, sem hefur komið víða við í íslensku listalífi síðustu ár. Hún hefur gefið út tvær plötur undir listamannanafni sínu en plata hennar, Allt verður alltílæ, hlaut Kraumsverðlaunin árið 2019. Katrín var tilnefnd sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2020 sem og Allt verður alltílæ sem var tilnefnd sem plata ársins í flokki popptónlistar. Hún gaf út plötuna PLASTPRINSESSAN í febrúar 2020. Tónsmíðar Katrínar innihalda oft leikgleði, grafísk skor og búninga. Hún stundar tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands og mun útskrifast með BA-gráðu þaðan næstkomandi júní. Tónsmíðakennarar hennar eru Sóley Stefánsdóttir og Hróðmar Sigurbjörnsson.
Ung-Yrkja er nýtt verkefni innan vébanda Yrkju, starfsþróunarverkefnis Tónverkamiðstöðvar fyrir ný tónskáld. Ung-Yrkja er sérstaklega löguð að ungum tónskáldum sem enn eru í háskólanámi í tónsmíðum. Í þessu fyrsta verkefni gefst þeim einstakt tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands og staðartónskáldinu Önnu Þorvaldsdóttur. Einnig kynnast þau vel starfsemi Tónverkamiðstöðvar, ekki síst nótnaumsýslu við gerð hljómsveitarverka. Við óskum tónskáldunum þremur til hamingju og hlökkum til samstarfsins.
Kommentare