top of page
Search

Íslensku tónlistarverðlaunin: Jón Ásgeirsson hlýtur heiðursverðlaun Samtóns

Tónsmíðar Jóns Ásgeirssonar þekkir nánast hvert mannsbarn á Íslandi. Jón hlaut heiðursverðlaun Samtóns á verðlaunahátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna sem haldin var í gærkvöld. Tónverkamiðstöð óskar Jóni innilega til hamingju með heiðursverðlaunin og þakkar fyrir áralangt samstarf.

Á vef Íslensku tónlistarverðlaunanna segir:

Jón Ásgeirsson tónskáld hlaut heiðursverðlaun Samtóns í ár en það var mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir sem afhenti Jóni verðlaunin og ekki annað sagt en að Jón Ásgeirsson sé verðskuldaður heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna. Jón Ásgeirsson er fæddur á Ísafirði 1928 og varð því níræður á síðasta ári. Jón hefur á langri ævi verið afkastamikið tónskáld, kennari og höfundur kennslubóka í tónlist. Á meðal kammerverka hans má nefna strengjakvartetta, blásarakvintetta, oktett fyrir blásara og Sjöstrengjaljóð fyrir strengjasveit. Konsertarnir eru sex fyrir ýmis hljóðfæri; síðast var flautukonsert hans frumfluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar á þessu ári.

Jón Ásgeirsson er einna þekktastur fyrir söngtónlist sína; sönglög, kórverk og óperur. Þá samdi Jón ballettinn Blindisleik sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu árið 1979. Einsöngslög Jóns eru um 90 talsins. Hæst ber lög hans við ljóð Halldórs Laxness: Maístjörnuna, Hjá lygnri móðu og Vor hinsti dagur, þá má nefna sönglagaflokkinn Svartálfadans við ljóð Stefáns Harðar Grímssonar og hvert mannsbarn á Íslandi þekkir kórlag hans við vísur Vatnsenda-Rósu: Augun mín og augun þín. Á meðal stærri kórverka Jóns eru Tíminn og vatnið við ljóð Steins Steinarrs og Á þessari rímlausu skeggöld við samnefnt kvæði Jóhannesar úr Kötlum.

Jón kenndi um árabil við Kennaraskóla Íslands, síðar Kennaraháskóla Íslands. Hann var skipaður prófessor við skólann árið 1996, fyrstur allra til þess að gegna slíkri stöðu í listgreinum á Íslandi. Tólf árum síðar, árið 2008, var honum veitt doktorsnafnbót í heiðursskyni fyrir framlag hans til tónlistaruppeldis í skólum landsins.

Verk Jóns Ásgeirssonar eru aðgengileg til yfirlits og kaupa í vefverslun Tónverkamiðstöðvar með því að smella HÉR.

80 views

Comments


bottom of page