Vegna þróunar tónlistarmála við Hallgrímskirkju sendi aðalfundur Tónskáldafélags Íslands sérstaka ályktun frá sér sem birtist hér í heild:
Ályktun frá aðalfundi Tónskáldafélags Íslands, haldinn 12. maí 2021
Íslensk tónskáld eins og aðrir landsmenn furða sig á fréttum af þróun tónlistarmála við Hallgrímskirkju. Kirkjan hefur verið í fararbroddi í sönglífi þjóðarinnar síðustu fjörtíu árin, og undir forystu kantors kirkjunnar, Harðar Áskelssonar, hefur þar verið byggt upp tónlistarstarf sem helst á sér hliðstæður við það sem best gerist meðal þjóðanna sem við berum okkur saman við. Nú hefur sóknarnefnd kirkjunnar leyst upp þetta starf með þeim afleiðingum að kantor kirkjunnar hættir störfum og kórar kirkjunnar hverfa á braut. Aðalfundur Tónskáldafélags Íslands harmar þessa þróun og vísar því til yfirstjórnenda kirkjunnar, að þeir grípi í taumana og forði því skelfilega menningarslysi sem hér hefur verið í uppsiglingu. Menningarstarfið í Hallgrímskirkju varðar Íslendinga alla og er það krúnudjásn í starfi þjóðkirkjunnar sem sú stofnun má síst vera án. Íslensk tónskáld þakka listafólki Hallgrímskirkju fyrir gefandi og skapandi samvinnu á síðustu áratugum með von um að samstarfið haldi áfram um ókomna framtíð.
Comments