NÓTNASAFNIÐ
Nótnasafn Tónverkamiðstöðvar er einstakt í sinni röð. Það telur yfir tíu þúsund verk eftir á fjórða hundrað tónskáld og má með sanni segja að ekki fyrirfinnist stærra eða ítarlegra nótnasafn íslenskra tónverka í heiminum. Safnið hefur byggst upp frá stofnun miðstöðvarinnar með því að íslensk tónskáld hafa skráð verk sín hjá miðstöðinni en miðstöðinni hafa einnig borist veglegar nótnagjafir.
Þegar nótur berast miðstöðinni fær hvert verk svokallað ISMN-númer sem er alþjóðlegur númerastaðall fyrir útgefnar nótur. Verkin eru síðan skráð í gagnagrunn miðstöðvarinnar, ýmist til sölu eða einungis til varðveislu. Að skráningu lokinni birtast þau í vefversluninni, shop.mic.is. Þar er hægt að forskoða verkin í heild og ganga frá kaupum. Afgreiðsla Tónverkamiðstöðvar á Laugavegi 105 annast þó stærri pantanir á verkum ásamt því að sjá um leigu á hljómsveitarverkum.