LÖG UM ÍSLENSKA TÓNVERKAMIÐSTÖÐ
Samþykkt á aðalfundi 28. maí 2019
1. gr.
Félagið heitir Íslensk tónverkamiðstöð, hér á eftir nefnd miðstöðin eða Tónverkamiðstöðin. Heimili og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Tónverkamiðstöðin starfar í umboði þeirra einstaklinga sem eru félagar í henni. Hún safnar ekki eignum í eigin þágu. Hún hefur sjálfstæðan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn sem kjörin er á aðalfundi. Á aðalfundi eiga atkvæði fullgildir félagar í miðstöðinni.
3. gr.
Starf Íslenskrar tónverkamiðstöðvar skal miða að því að auðga íslenskar tónbókmenntir og auka útbreiðslu þeirra. Til þess skulu stjórnendur miðstöðvarinnar hafa að leiðarljósi gildi metnaðarfullrar tónsköpunar og margbreytileika þeirrar tónlistar sem samin er í landinu.
4. gr.
Íslensk tónverkamiðstöð skal starfrækja safn íslenskra tónverka sem nýtist til kynningar á íslenskri tónlist bæði innanlands og í útlöndum. Ennfremur skal stefna að því að safnið sé sá lifandi vettvangur sem eflt getur tengsl á milli tónskálda, flytjenda og fræðimanna og jafnframt örvað samskipti þessara hópa við annað áhugafólk um íslenska tónlist.
5. gr.
Öllum íslenskum höfundum er heimilt að leggja nótur af verkum sínum inn á safn miðstöðvarinnar að uppfylltum lágmarkskröfum um frágang handrita. Þeir höfundar sem eiga að lágmarki tíu sönglög/smáverk eða fimm verk í stærri formum skráð í safninu, hafa sinnt tónsmíðum reglubundið og hafa auk þessi haft af þeim tekjur sem höfundar, teljast félagar miðstöðvarinnar, eru boðaðir á aðalfund og hafa á honum atkvæðisrétt.
6. gr.
Falli tónskáld frá getur fulltrúi handhafa réttarins á verkum þess sótt um að gerast aukafélagi í tónverkamiðstöðinni. Slíkur félagi nýtur sömu réttinda og fullgildur félagi nema að hann hefur ekki atkvæðisrétt á fundum miðstöðvarinnar. Innganga aukafélaga er háð því skilyrði, að hann sé handhafi réttinda á verkum tónskálds, sem átt hefur verulegra hagsmuna að gæta innan miðstöðvarinnar.
7. gr.
Félagar í Íslenskri tónverkamiðstöð greiða árgjald ef svo er ákveðið á aðalfundi. Aukafélagar greiða sömu árgjöld og þeir fullgildu.
8. gr.
Tónverkamiðstöðin aflar fjár með framlögum úr opinberum sjóðum, styrkjum frá einkafyrirtækjum og framlögum úr sjóðum tónskálda. Ennfremur aflar hún sér tekna með nótnaleigu og sölu á nótum og hljóðritunum. Hreinn ágóði af rekstri hennar rennur aftur til þeirra verkefna sem miðstöðin vinnur að í það og það sinn.
9. gr.
Í stjórn miðstöðvarinnar skulu eiga sæti fjórir menn. Þrír þeirra skulu kosnir á aðalfundi miðstöðvarinnar og jafnmargir til vara. Kjörtími er tvö ár. Tveir þessara manna skulu ætíð koma úr röðum félagsmanna Tónskáldafélags Íslands og skal kjörtími þeirra skarast þannig að á hverjum aðalfundi sé aðeins kosið um annan þeirra. Þriðji maðurinn skal kjörinn úr röðum félagsmanna Tónverkamiðstöðvar sem ekki eru í Tónskáldafélagi Íslands. Ríkisútvarpinu skal boðið að skipa fjórða manninn í stjórnina og varamann hans.
Aðalfundur kýs með sérstakri kosningu annan þeirra stjórnarmanna, sem kemur úr röðum félagsmanna Tónskáldafélags Íslands, sem formann stjórnar miðstöðvarinnar til eins árs í senn. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.
10. gr.
Stjórn miðstöðvarinnar heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Afl atkvæða ræður á stjórnarfundum en séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmanna sækja hann. Undirskrift formanns og tveggja meðstjórnenda er bindandi fyrir félagið. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri miðstöðvarinnar og markar henni stefnu. Hún ræður sér framkvæmdarstjóra til þess að annast daglegan rekstur og vinna að framgangi þeirra málefna sem miðstöðin lætur sig varða. Framkvæmdastjórinn ræður annað starfslið miðstöðvarinnar.
11. gr.
Aðalfund Íslenskrar tónverkamiðstöðvar skal halda fyrir 1. júní ár hvert og skal boða til hans rafrænt með minnst 14 daga fyrirvara. Aðra almenna félagsfundi skal boða með a.m.k. 5 daga fyrirvara. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar
3. Reikningar miðstöðvarinnar
4. Félagsgjöld og stjórnarlaun
5. Lagabreytingar
6. Kosning stjórnarmanna
7. Kosning formanns stjórnar
8. Kosning félagslegra endurskoðenda
9. Innganga nýrra félaga
10. Önnur mál
12. gr.
Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi og sé þá að minnsta kosti ¾ hluti fundarmanna samþykkur breytingunum. Tillögur um lagabreytingu skulu sendar félagsmönnum minnst 14 dögum fyrir aðalfund.
13. gr.
Íslensk tónverkamiðstöð verður því aðeins leyst upp að ¾ hluti fundarmanna á aðalfundi sé samþykkur því. Fundurinn skal þá jafnframt ákveða um meðferð á eignum félagsins og gera nauðsynlegar ráðstafanir er að félagsslitum lúta.
14. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi öll eldri lagaákvæði um Íslenska tónverkamiðstöð.